Lítt vorlegt veður eftir helgi

Veðurstofan spáir áframhaldandi austlægum áttum og snjókomu eða slyddu á austanverðu landinu í dag. Úrkomuminna verður vestan til en þó gæti snjóað í einhverjar klukkustundir á Suðvesturlandi í kvöld. 

Á morgun og sunnudag er útlit fyrir hæglætisveður, stöku él hér og þar en hægan vind og hita um frostmark en eftir helgi gengur í útsynning með éljum og lítt vorlegu veðri a.m.k. á vestanverðu landinu. Eins herðir á frosti um miðja næstu viku, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Veðurspá fyrir næstu daga

Austlæg átt 5-13 m/s, hvassast austan til en 8-15 við Suðausturströndina á morgun. Slydda eða snjókoma með köflum á Austurlandi og Austfjörðum en stöku él eða slydduél í öðrum landshlutum. Bætir heldur í vind og úrkomu S- og SV-lands í kvöld.
Hæg suðlæg átt og skýjað með köflum en stöku él á annesjum austanlands og við vesturströndina seint á morgun. Hiti 0 til 5 stig yfir daginn, en víða vægt næturfrost inn til landsins.

Á laugardag:
Austanátt, víða 8-15 m/s, hvassast við SA-ströndina. Él A-lands og við S-ströndina, annars skýjað en þurrt. Lægir smám saman og léttir víða til þegar líður á daginn, en éljabakkar við V-ströndina síðdegis. Hiti 0 til 5 stig, en frost 0 til 5 stig í innsveitum NA-lands. 

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt og snjókoma eða slydda með köflum, en þurrt NA-lands. Hiti 0 til 4 stig, en vægt frost í innsveitum N-lands. 

Á mánudag:
Hægt vaxandi suðvestanátt 8-13 m/s síðdegis. Talsverð rigning, en þurrt NA-til. Hlýnandi í bili. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Gengur í suðvestan 10-18 með éljum, hvassast við S- og V-ströndina, en úrkomulítið NA-til. Hiti um og undir frostmarki. 

Á fimmtudag:
Minnkandi suðvestanátt og éljagangur en kólnar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert