Vilja fjölga dómurum við Landsrétt

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Á fundi dómstólasýslunnar fyrr í dag var bókun samþykkt þar sem þess er farið á leit við dómsmálaráðuneytið að það hlutist til um lagabreytingu um að heimilt verði að fjölga dómurum við Landsrétt. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn dómstólasýslunnar í tilefni af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars 2019 í málinu Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi.

Í tilkynningunni kemur fram að fjölgun dómara taki mið af því að fjórir dómarar við réttinn geti að óbreyttu ekki tekið þátt í dómarastörfum. Án þess að gripið verði til þessa úrræðis muni álagið við réttinn aukast verulega með tilheyrandi drætti á meðferð mála.

„Áður en endanleg ákvörðun verður tekin um af Íslands hálfu að óska eftir að málinu verði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins leggur dómstólasýslan jafnframt ríka áherslu á að áhrif slíks málsskots verði könnuð. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga þá óvissu sem Landsréttur hefur mátt búa við allt frá því að hann tók til starfa 1. janúar 2018,“ kemur fram í tilkynningunni.

Dómstólasýslan telur einnig mikilvægt að traustum stoðum verði skotið undir Landsrétt, svo fljótt sem verða má, í stað þess að lagalegur grundvöllur hans verði áfram dreginn í efa. Dómstólasýslan er reiðubúin til samráðs og að veita alla aðstoð í þessu sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert