Pókerspilarar beðnir um að hafa varann á

Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar Jónssonar frá því 9. …
Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar Jónssonar frá því 9. febrúar. Jón var staddur í Dublin á Írlandi og ætlaði að taka þátt í pókermóti í borginni þessa helgi. Skjáskot

Pókerspilarar um heim allan eru beðnir um að vera á varðbergi í kjölfar hvarfs Jóns Þrastar Jónssonar.

Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar frá því 9. febrúar. Hann var staddur í Dublin á Írlandi og ætlaði að taka þátt í pókermóti í borginni þessa helgi.

Alþjóðlega póker-vefsíðan PokerScout biðlar til pókerspilara að vera vakandi þar sem þeir geta verið ákjósanleg skotmörk ræningja og þjófa þar sem þeir eru oftar en ekki með mikið reiðufé á sér. Pókerspilarar sem ferðast heimshorna á milli til að taka þátt í mótum ættu sérstaklega að vera á varðbergi.

Pókerspilurum er meðal annars ráðlagt að vera ekki með mikið reiðufé á sér í einu, forðast fáfarnar götur eftir að dimma tekur og að þiggja ekki far með ókunnugum. Þá er þeim ráðið gegn því að taka þátt í leynilegum pókermótum með ókunnugum.

Rúmur mánuður er liðinn frá því síðast sást til Jóns Þrastar, en það var í grennd við Highfield-sjúkra­húsið. Mögu­lega sást til hans setjast í bif­reið og get­ur hann hafa farið hvert sem er inn­an Írlands.

Enginn uppgjafartónn í leitinni

Fjölskylda Jóns hefur haldið til á Írlandi frá því að leit að honum hófst og segist ekki ætla að yf­ir­gefa landið fyrr en hann sé fund­inn. Þá biðla þau til heima­manna um hjálp við leit­ina og hvetja fólk til þess að prenta út pla­köt sem hafa verið gerð aðgengi­leg með Google Dri­ve.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, sagði í samtali við Morgunblaðið í fyrradag að írska lög­regl­an vinni að því hörðum hönd­um að fara í gegn­um þær vís­bend­ing­ar sem hafa borist. Enn séu að ber­ast ábend­ing­ar, auk þess sem Alþjóðalög­regl­an In­terpol lýsti eft­ir Jóni í síðustu viku.

„Það er eng­inn upp­gjaf­ar­tónn þar alla ­vega, sem er gott. Við erum mjög vel upp­lýst um stöðu mála. Nú er kannski minna að ger­ast en fyrst, en það er alltaf eitt­hvað. Við bíðum bara og sjá­um,“ sagði Davíð Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert