Hugsað sem meira stuð

Frá hjólakeppni í Hlíðarfjalli.
Frá hjólakeppni í Hlíðarfjalli. Ljósmynd/Ármann Hinrik

Fyrsta 4cross-hjólreiðamótið sem haldið hefur verið í Hlíðarfjalli fer fram á laugardag en Ágúst Örn Pálsson mótsstjóri segir að brautin sé stutt og að keppnisfyrirkomulag eigi að vera skemmtilegt, bæði fyrir keppendur og áhorfendur.

„4cross er mjög óalgengt keppnisform hér á landi. Þetta er útsláttarkeppni þar sem fjórir keppa í brautinni, sem troðin er í snjó og inniheldur beygjur og stökkpalla, og tveir komast áfram í hvert sinn,“ segir Ágúst við mbl.is.

Krafa um aukinn öryggisbúnað

Keppnin heldur áfram þar til fjórir standa eftir sem keppa til úrslita. „Síðasta ferðin eru úrslitin og sá sem er fyrstur niður þá vinnur,“ segir Ágúst. Hann vonast eftir því að skráning verði það góð að bæði sé hægt að keppa í karla- og kvennaflokki.

Eins og áður segir fer keppnin fram í Hlíðarfjalli en brautin hefst efst á neðra svæði og verður um 750 metra löng. Strangar öryggiskröfur eru gerðar til keppenda. Þeir skulu vera með hjálm sem ver andlit að fullu, hnéhlífar og bakbrynju. 

Auk þess þurfa keppendur að vera í hönskum og með hlífðargleraugu. Mótsnefnd áskilur sér rétt til að meina keppendum þátttöku ef öryggisbúnaður þykir ekki öruggur.

„Við komum til með að gera braut með hallandi beygjum og þetta er gert þannig að fólk haldist í brautinni. Þetta er að engu að síður þannig að við gerum kröfur um meiri öryggisbúnað en í öllum öðrum mótum sem við höfum haldið,“ segir Ágúst.

Hann segir keppnina ólíka þeim hjólakeppnum sem haldnar hafa verið áður í Hlíðarfjalli. 

„Það hefur tvisvar áður verið haldið fjallabrun þarna að vetri til en í þau skipti var brautin mun lengri. Það er erfiðari framkvæmd og minna spennandi að horfa á. Þetta er hugsað meira sem stuð, bæði fyrir keppendur og áhorfendur,“ segir Ágúst sem hvetur áhugasama eindregið til að skrá sig hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert