Flug- og strætóferðum aflýst

Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Flugferðum innlands hefur verið aflýst og eins falla niður ferðir hjá Strætó vegna mjög slæmrar veðurspár. Aftakaveðri er spáð víða á landinu og mikilli röskun á samgöngum. 

Uppfært klukkan 9:40: 

Búið er að loka Siglufjarðarvegi vegna óveðurs en búið að opna leiðina yfir Fjarðarheiði. Á Norðausturlandi er Sandvíkurheiði ófær og leiðin um Hólasand og Hófaskarð er lokuð. Víkurskarði hefur verið lokað.

Flugfélagið Ernir flýgur til Hafnar í Hornafirði um tíu leytið og er flug þangað síðdegis í skoðun. Öllu flugi til Húsavíkur hefur verið aflýst í dag. Flugi til Vestmannaeyja var aflýst í morgun en flug þangað síðdegis er í athugun sem og flug til Bíldudals og á Gjögur, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu flugfélagsins.

Ekkert hefur verið flogið hjá Flugfélagi Íslands (Air Iceland Connect) það sem af er morgni og hefur öllu flugi í dag verið aflýst. 

Aftakaveðrið hefur áhrif á eftirtaldar leiðir Strætó:

Leið 56: Akureyri – Egilsstaðir

Allar ferðir falla niður í dag.

Leið 57: Reykjavík - Akureyri

Fyrri ferðin frá Reykjavík til Akureyrar ekur aðeins að Bifröst.

Fyrri ferðin frá Akureyri til Reykjavíkur fellur niður.

Leið 51: Reykjavík – Höfn í Hornafirði

Ferðin frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði ekur aðeins að Hvolsvelli, eins og staðan er núna.

Ferðin frá Höfn til Reykjavíkur fellur niður.

Farþegum er bent á að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu Strætó eða á Twitter-síðu Strætó.

Að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings Vegagerðarinnar, veldur djúpa lægðin á leið yfir Austurland margháttuðu illviðri á landinu. „Athygli vakin á stormi og stórhríð á mestöllu Norðurlandi til kvölds. NA- og A-lands gerir ofsaveður af NV, 25-28 m/s síðdegis og í kvöld. Skafrenningur og blinda um mest allt land,“ segir í tilkynningu.

Leiðirnar um Hófaskarð, Fjarðarheiði, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði eru lokaðar vegna óveðurs.

Greiðfært er á Reykjanesbraut og á höfuðborgarsvæðinu en annars er víðast hálka eða snjóþekja á vegum á Suðvesturlandi og skafrenningur á fjallvegum. Á Vesturlandi er víða snjór eða hálka á vegum, skafrenningur og él.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjór á vegum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er norður í Árneshrepp. 

Á Austurlandi, Norðurlandi og Norðausturlandi er stórhríð á Öxnadalsheiði og mjög blint. Eins og víðast annars staðar er hálka og snjór á vegum og eins er víða snjókoma og éljagangur og mjög blint. 

Stórhríð er í Öræfasveit og víða snjór og hálka á vegum á Suðausturlandi og Suðurlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert