Landsréttur sneri við nauðgunardómi

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknað karlmann af ákæru um kynferðisbrot gagnvart konu.

Héraðsdómur dæmdi manninn árið 2017 í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi og til að greiða konunni eina og hálfa milljón króna í miskabætur, auk rúmlega tveggja milljóna króna í sakarkostnað.

Í reifun dómsins hjá Landsrétti kemur fram að maðurinn hafi verið ákærður fyrir að afklætt konuna sem var gestkomandi á heimili hans og sofnaði á rúmi hans. Hann hafi því næst haft við hana samræði gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

Í dómnum kom fram að maðurinn hafi eindregið neitað sök og sagt að konan hafi samþykkt að hafa við hann kynmök. Lýsing hans á því að konan hefði ekki verið sofandi eða meðvitundarlítil þótti vera í samræmi við vitnisburð hennar.

Einnig kemur þar fram að niðurstaða matsgerðar um magn alkóhóls í blóði hennar benti ekki til þess að hún hafi verið rænulaus vegna áfengisneyslu.

„Að mati réttarins væru ekki efni til að líta svo á að framburður brotaþola hefði þá stoð í gögnum málsins eða framburði vitna að hann nægði til þess, gegn eindreginni neitun X og trúverðugum framburði hans, að ákæruvaldið hefði axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi, samkvæmt 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að sýna fram á að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tæki til,“ segir í dómnum.

Maðurinn var því sýknaður auk þess sem einkaréttakröfu konunnar var vísað frá héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert