Segja birtingu álits siðanefndar fráleita

Álit ráðgefandi siðanefndar um Klaustursmálið var birt á vef Alþingis …
Álit ráðgefandi siðanefndar um Klaustursmálið var birt á vef Alþingis í kvöld. mbl.is/Hari

Fjórir þingmenn Miðflokksins segja það fráleitt að álit ráðgefandi siðanefndar um Klaustursmálið svokallaða hafi verið birt á vef Alþingis í kvöld, áður en frestur til að skila andmælum rynni út. Í tilkynningu frá Miðflokknum segir að slíkt gangi gegn stjórnsýslulögum. 

Í álitinu kemur meðal annars fram að það er mat meirihluta ráðgefandi siðanefndar að samtalið sem átti sér stað á barnum Klaustri 20. nóvember milli sex þingmanna, og náðist á upptöku, geti ekki talist einkasamtal. 

Í tilkynningu Miðflokksins vegna birtingar álitsins segir að fyrr í dag hafi fjórir þingmenn flokksins gert athugasemd við að til stæði að birta mat „svokallaðrar siðanefndar Alþingis á eigin hlutverki á vef þingsins kl. 19:00 í kvöld.“ Þá bendir flokkurinn einnig á að fyrir liggja nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýna að mat siðanefndarinnar væri byggt á röngum forsendum. Ekki kemur fram í tilkynningunni hverjar hinar nýju upplýsingar séu. 

Fallist var á kröfu þingmannanna og ákveðið að hætta við birtingu greinargerðarinnar. Það staðfestir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is. Álitið birtist samt sem áður á vef þingsins um klukkan 19 í kvöld fyrir mistök. Álitið hefur nú verið fjarlægt af vef Alþingis en til stóð að birta það síðdegis á morgun. 

Í tilkynningu Miðflokksins segir að pólitískt eðli málsins sé nú staðfest enn á ný. „Lög og grundvallarreglur sanngjarnrar málsmeðferðar hafa ítrekað verið brotnar við meðferð málsins. Þegar hafa allir meðlimir forsætisnefndar sagt sig frá málinu eftir að hafa gert sig vanhæfa og tveir af þremur meðlimum siðanefndarinnar vikið,“ segir í tilkynningu flokksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert