Tóm vitleysa eða ósköp eðlilegt?

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka …
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Samsett mynd

„Ég verð að játa að mér finnst þetta heldur langt seilst,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), um veggspjöld sem Efling hefur látið hengja upp á hótelum vegna fyrirhugaðra verkfalla á fimmtudag og föstudag. Þar er ferðafólk hvatt til að ferðast ekki með hópferðabílum.

Eins og staðan er núna hefst tveggja daga verkfall Eflingar og VR á fimmtudag. Aðgerðirnar ná til rútufyrirtækja og 40 hótela á félagssvæði Eflingar og VR.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að veggspjöldin séu eðlileg og að honum þyki sjálfsagt að ferðafólk sé upplýst um stöðuna, enda geti hún haft áhrif á ferðir þeirra og áætlanir.

Skilaboðin sem hengd hafa verið upp í hótelum vegna verkfalla …
Skilaboðin sem hengd hafa verið upp í hótelum vegna verkfalla á fimmtudag og föstudag.

Ferðamenn ekki hluti af íslenskum vinnumarkaði

Jóhannes segir hins vegar að það sé nokkuð sérstakt að Efling hengi upp skilaboð sem beinist að viðskiptavinum fyrirtækja sem fara í verkfall. „Það er ekki hægt að líta á það nema sem tóma vitleysu. Ferðamennirnir eru ekki hluti af íslenskum vinnumarkaði. Þeir hljóta að ráða því algjörlega sjálfir hvaða ferðamáta þeir nota sem er í boði á þessum dögum,“ segir Jóhannes.

Ég held ég gangi svo langt að segja að það komi Eflingu einfaldlega ekki við hvað gestir okkar gera, eins lengi og að öðru leyti er farið eftir lögum um vinnumál á Íslandi,“ bætir Jóhannes við. Hann segir enn fremur að verkföllin sem boðuð hafa verið valdi nægjanlega miklu tjóni þó að ekki sé verið að bæta við þau skilaboðum til gesta sem eiga ekki við rök að styðjast.

Sér ekki hvert álitamálið er

Eins og áður kemur fram þykir Viðari eðlilegt að skilaboðunum sé beint til ferðalanga. Spurður hvort ekki séu einhverjar rútuferðir undanþegnar verkföllunum svarar Viðar:

Við lítum svo á, eins og fram hefur komið, að við höfum samningsumboð fyrir allan hópbifreiðaakstur á okkar félagssvæði. Við erum í kjarabaráttu fyrir hönd allra þeirra sem starfa undir þeim kjörum. Þar af leiðandi er það okkar afstaða að allir þeir sem það gera eigi að virða okkar verkfallsboðun.

Spurður um ummæli Jóhannesar að ferðamenn séu ekki hluti af íslenskum vinnumarkaði segist Viðar ekki sjá hvert álitamálið er. „Mér finnst mjög eðlilegt að við beinum því til ferðamanna að taka ekki þátt í verkfallsbrotum. Þetta er eitthvað sem við beinum til allra; að virða okkar verkfallsboðun. Það er kall sem við höfum látið hljóma um allt samfélagið og ferðamenn eru engin undantekning þar. Sérstaklega varðar þetta ferðamenn því þetta er verkfall í ferðamannageiranum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina