Sólarhringsverkföllum aflýst

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/​Hari

Efling - stéttarfélag og VR hafa aflýst sólarhringsverkföllum á hótelum og í hópbifreiðafyrirtækjum. Árangur hefur náðst í samningaviðræðum sem nánar verður kynntur á morgun.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Eflingar.

Verkfall strætisvagnabílstjóra í fyrramálið stendur aftur á móti. 

Að sögn Elísabetar Ólafsdóttur, skrifstofustjóra hjá ríkissáttasemjara, standa fundarhöld enn yfir.

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/​Hari

Eru að sjóða saman pakka

„Við getum mögulega komið einhverju saman í kvöld. Það veltur svo á fleiri þáttum sem ekki liggja fyrir og geta ekki legið fyrir í kvöld,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spurður út í stöðu mála og bætir við að þeir þættir snúi að stjórnvöldum.

„Við erum að sjóða saman pakka sem snýr að mörgum þáttum,“ segir hann en kveðst ekki geta tjáð sig nánar um hvað felst í því.

Hann reiknar með því að hitta stjórnvöld á morgun. Vinnan í kvöld verður lögð fyrir samninganefndir félaganna á morgun.

Uppfært kl. 23.02:

Fram kemur á vefsíðu Eflingar að verkföllum hjá Almenningsvögnum Kynnisferða, sem keyra Strætó, hafi enn ekki verið aflýst en starfsmenn þar funda með forsvarsmönnum fyrirtækisins í fyrramálið.

Frá fundi hjá ríkissáttasemjara.
Frá fundi hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina