Vilja að menntun sé metin til launa

Guðríður Arnardóttir, lengst til vinstri, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðríður Arnardóttir, lengst til vinstri, formaður Félags framhaldsskólakennara. mbl.is/Eggert

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir félagið nálgast sínar viðræður um nýjan kjarasamning á öðrum forsendum en í kjarasamningunum sem voru undirritaðir í gærkvöldi.

„Við viljum að menntun sé metin til launa. Það er gríðarlegur kostnaður sem felst í því að missa af ævitekjum og skuldsetja sig við háskólamenntun og það hlýtur að skipta máli hjá okkur. Það hlýtur að vera eðlilegt að það sé ákveðinn launamunur á milli hópa með mismunandi menntun. Núna munum við skoða þetta og rýna og sjá hvernig umræðan þroskast á næstu dögum og framyfir helgi,“ segir Guðríður, sem fagnar því að gengið hafi verið frá kjarasamningunum í gær.   

Frá undirritun kjarasamninganna í gærkvöldi.
Frá undirritun kjarasamninganna í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Nýr samningafundur verður boðaður innan fárra daga en kjarasamningur félagsins losnaði 31. mars og hafa nokkrir fundir verið haldnir með samningaaðilum þar sem önnur atriði hafa verið rædd en þau sem snúast um launahækkanir.  

„Ég ætla ekkert að segja á þessum tímapunkti hvernig þetta mun hafa áhrif á okkar launakröfu," segir hún spurð út í áhrif kjarasamninganna sem voru undirritaðir í gær á þeirra viðræður. „Ég hef sagt að við viljum fylgja almennri launaþróun í þessu landi og við viljum að sú fyrirhöfn og sá kostnaður sem við höfum borið af því að mennta okkur sé metið til launa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert