Málið þoli ekki frekari tafir

mbl.is/Kristinn Magnússon

Framganga stjórnvalda vegna Procar-málsins svonefnds er harðlega gagnrýnd af Runólfi Ólafssyni, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðareigenda (FÍB), í nýjasta tölublaði FÍB-blaðsins. Félagið hafi ítrekað haft samband við yfirvöld og kallað eftir viðbrögðum og aðgerðum af þeirra hálfu vegna málsins.

Vísar Runólfur þar til bílaleigunnar Procar sem uppvís var fyrr á þessu ári að því að hafa breytt kílómetramælum í fjölda bifreiða sinna til þess að auðveldara væri að selja þá áfram á almennum markaði til almennings. Bílaleigan viðurkenndi að hafa staðið þannig að málum í mörgum tilfellum en ljóst þykir að tilfellin séu miklu fleiri.

Þannig hafi engin viðbrögð komið frá ráðherra neytendamála, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, eða ráðherra samgöngumála Sigurði Inga Jóhannssyni vegna málsins. FÍB skori á ráðherrana tvo, Samgöngustofu og lögregluna að bregðast strax við því óöryggi og tjóni sem þegar hefur skapast vegna ólögmætrar sölu bílaleigubíla með falsaða kílómetrastöðu til grandalausra neytenda.

Runólfur segir að mikilvægt sé að bæði stjórnvöld og markaðurinn tryggi öryggi og neytendavernd í bílaviðskiptum svo endurheimta megi traust á markaði með notuð ökutæki. Vinna þurfi að úrbótum til framtíðar og halda opinbera skrá um þau ökutæki sem átt hafi verið við með sviksamlegum hætti. 

Procar sé enn í fullum rekstri þrátt fyrir að hafa viðurkennt stórfelld svik og auðgunarbrot. Þær upplýsingar fáist aðeins frá lögreglu að verið sé að skoða mál fyrirtækisins og sama eigi við um Samgöngustofu. FÍB hafi ítrekað komið því á framfæri við lögreglu og Samgöngustofu að málið þoli ekki frekari tafir. Til að verja rannsóknarhagsmuni verði að koma í veg fyrir samkeppnisbrot og vernda neytendur.

Fjallað er um skrif Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB, á vef félagsins.

mbl.is