Góð meðmæli þegar börn syngja og hreyfa sig með

Jón Jónsson umkringdur krökkum eftir flutning hátíðarlagsins á Seltjarnarnesi.
Jón Jónsson umkringdur krökkum eftir flutning hátíðarlagsins á Seltjarnarnesi. Mbl/Eggert

Tónlistarmaðurinn Jón Jóns­son hefur verið áberandi í tónlistar­lífinu síðasta áratuginn. Hann samdi á dögunum nýtt lag Barna­menningarhátíðar í Reykjavík. Hann segir það góð meðmæli þegar börn syngja og hreyfa sig með tónlist sem hann hefur gert. Barnablað Morgunblaðsins hitti Jón og spurði hann nokkurra spurninga.

Hver er Jón Jónsson?
Það er hress og kátur, verðandi þriggja barna faðir, og eiginmaður. Sem er svo heppinn að fá að vinna við það sem mér þykir skemmtilegast, tónlist.

Þú heitir Jón Ragnar Jónsson, er það ekki?
Jú, það er rétt. Í daglegu lífi nota ég Ragnar mikið og þeir sem hafa þekkt mig alla tíð kalla mig Jón Ragnar. Jón Jónsson er komið frá því að ég var í háskóla í Boston í Bandaríkjunum. Þeir áttu svo erfitt með að segja Ragnar af því Ameríkaninn kann ekki að segja svona flott err eins og við. Þar byrjaði boltinn að rúlla í tónlistinni hjá mér með frumsömdum lögum.

Hvernig kom til að þú myndir semja lag barnahátíðarinnar?
Það er mjög skemmtilegt að segja frá því. Ég er í stjórn Barnaheilla og stjórnarformaðurinn þar, hún Harpa, hún vinnur líka hjá Reykjavíkurborg og er að sjá um Barnamenningarhátíðina. Við áttum gott spjall um hvort ég væri ekki til í að semja lag og hún stakk upp á því að Bragi Valdimar myndi semja textann. Mér fannst það skemmtilegt af því það hefur verið lítill draumur hjá mér að fá að semja lag við texta frá honum. Þannig að draumarnir geta ræst og þarna rættist einn af mínum.

Um hvað fjallar lagið?
Lagið fjallar í raun um það að það eru alls konar draumar sem við öll eigum. Draumarnir geta ræst. Maður þarf bara að trúa og leggja á sig. Ef maður gerir það þá rætast draumarnir. Textinn er draumar 4. bekkinga í Reykjavík. Þau sendu inn sína drauma og síðan gerði Bragi texta út frá því.

Er ekkert erfitt að semja gott lag?
Það er auðvitað miserfitt. Sum lög eru lengi að fæðast. Þetta tiltekna lag var frekar fljótt að verða til. Tíminn var naumur. Á mánudegi fékk ég textann frá Braga og á þriðjudegi áttum við bókaðan tíma í hljóðveri.

Hvað hefur þú samið mörg lög?
Ég hef samið mjög mörg lög. Örugglega um 200 lög en þau hafa ekki öll verið gefin út. Maður þarf stundum að semja nokkur lög áður en maður finnur út hvað gæti virkað hverju sinni. Ég myndi segja að ég væri búinn að gefa út u.þ.b. 40 lög.

Hvert er þitt uppáhalds?
Það eru bæði persónulegu lögin mín. Lagið Þegar ég sá þig fyrst sem ég samdi til konunnar minnar og svo um börnin mín lagið Ykkar koma.

Geta allir samið lag?
Ég held að það gætu allir samið lag en svo er það spurning hversu gott það er.

Hvað ertu að gera dagsdaglega?
Já, fyrir utan tónlistina er ég að bralla ýmislegt. Ég var með Fjörskylduna en því miður þurfti Rúv að hætta með þá þætti. Ég hefði gjarnan viljað halda því áfram. Svo er ég mikið með fyrirlestra í skólum að tala um heilbrigðan lífsstíl og fjármálafyrirlestra hjá Arion banka. Svo eru ýmis tengd verkefni sem snúa að tónlistinni. Svo passa ég líka upp á að rækta líkamann á hverjum degi. Heilbrigður lífsstíll hefur góð áhrif á hamingjuna.

Skipta börn miklu máli?
Já, börn eru framtíðin. Þess vegna þurfum við að hlúa rosalega vel að þeim og gefa þeim ást og kærleika. Þannig getur framtíðin orðið ennþá betri en nútíðin.

Hvenær ákvaðst þú að verða tónlistarmaður?
Ég hef sungið frá því ég man eftir mér, sem er alveg klassískt svar. Byrjaði að semja þegar ég var 10-11 ára og kom fram í Íslandi í dag þegar ég var 12 ára. Kom þar fram í fyrsta skipti með eigið lag. Það var lag gegn reykingum sem heitir Úti í rigningu. Svo tók ég þátt í hæfileikakeppnum og var í söngleikjum í Versló en ég ákvað ekkert að verða söngvari fyrr en ég kýldi á að gefa út eigið lag. Þá fór boltinn að rúlla. Lagið Lately kom út árið 2010. Í seinni tíð hef ég svo kannski sungið meira á íslensku en byrjaði á ensku, því þá var ég í skóla í Boston.

Eru börn erfiður markhópur?
Börn eru rosalega heiðarleg. Láta mann alveg vita hvað er vont og hvað er gott. Það er rosa gaman þegar börn eru að syngja eða hreyfa sig með tónlist sem maður hefur gert. Það eru góð meðmæli.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Ég man það ekki alveg, en ég held ég hafi ætlað að verða læknir. Allavega að hafa góð áhrif á fólk.

Hvað er það eftir­minni­legasta á tónlistar­ferlinum?
Já, það er þegar ég fór og spilaði á skrifstofu í New York fyrir L.A. Read og fékk samning í kjölfarið. Svo er fyrsta þjóðhátíðin mín mjög eftirminnileg.

Hvað er fram undan í tónlistinni?
Fram undan er að gefa út nýtt lag sem er svona sumarsmellur og er á íslensku og heitir Komið þér sælar.

Og þú átt von á barni?
Já, það er fram undan. Ég á tvö börn fyrir þannig að núna kann maður þetta allt saman. Bara spenna, engin örvænting. Við erum komin framyfir settan dag og erum að bíða. Það gæti verið komið í heiminn þegar þetta blað kemur úr prentun.

Átt þú þér sjálfur einhvern uppáhalds- tónlistarmann?
Jú, bróður minn, Frikka Dór. Svo held ég líka mikið upp á einn erlendan sem heitir John Mayer. Og þar sem þetta blað kemur út á laugardaginn, þá á Hafdís konan mín afmæli, þá ætla að gefa henni miða á tónleika með honum í haust.

Hver eru þín helstu áhugamál?
Ég myndi segja að efst á lista væri að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni. Ferðalög eru skemmtileg. Ég hef gaman af fótbolta og var sjálfur í boltanum lengi. Ég fylgist með mínu liði FH og reyni að fara sjálfur í fótbolta tvisvar í viku. En eins og ég sagði áðan er ég svo heppinn að vinna við mitt stærsta áhugamál.

Einhver skilaboð til barna?
Verið dugleg við að rækta ykkar hæfileika og óhrædd við að láta ykkur dreyma stórt. Verið líka góð hvert við annað og hjálpist að við að stækka ykkar sjálfstraust og drauma.

Geta draumar ræst?
Draumar geta ræst.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert