Fylgjandi útrýmingu minksins

Minkur við veiðiá.
Minkur við veiðiá. mbl.is/Golli

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir það æskilegast að útrýma minknum en á erfitt með að segja til um hversu raunhæft það er.

Stutt er síðan Guðmundur Ingi og Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, skrifuðu undir samning um minkarannsóknir.

„Auðvitað væri það æskilegast. Þetta er mjög ágeng tegund sem er framandi í íslenskri náttúru en það er ekki markmið þessa samnings sem við vorum að skrifa undir að útrýma mink á Íslandi og ég skal ekki segja til um hversu raunhæft það er,“ segir ráðherrann spurður út í afstöðu sína til útrýmingar minka.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert

Hann bendir á að vinna með ágengar og framandi tegundir gangi oft og tíðum út á að halda þeim í skefjum. „Markmiðið með því að setja fjármagn núna í rannsóknir og vöktun á stofninum er að gera það auðveldara fyrir okkur að skilja ákveðna þætti í lífsferli minksins sem getur kannski leitt til þess að veiðarnar verði árangursríkari.“

Forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands sagði á dögunum að lítið sé greitt fyrir minkaveiðar og því dragi úr hvatanum til að drepa dýrin. Kemur til greina hjá Guðmundi Inga að hækka greiðsluna? „Ég hef ekki tekið afstöðu til þess,“ segir hann og nefnir að þessi greiðsla sé á forræði sveitarfélaganna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Róbert A. Stefánsson, …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, við undirritun samningsins. Ljósmynd/Náttúrustofa Vesturlands

Ný markmið á næsta ári 

Að sögn ráðherrans liggur á næsta ári fyrir að setja ný markmið í tengslum við alþjóðlegan samning um vernd líffræðilegrar fjölbreytni sem Íslendingar eru aðilar að. Markmiðið gildir til 2030 og telur hann að óhjákvæmilega þurfi að líta þar til þátta á borð við ágengar, framandi tegundir. Þær séu mjög víða í heiminum ein af ástæðum þess að tegundir deyja út. „Þetta er eitt af mörgu sem þarf að líta til í því samhengi og þetta mun koma til umræðu hjá okkur á Íslandi og í ráðuneytinu núna þegar við munum setja vinnu í gang við að endurskoða stefnu Íslands varðandi líffræðilega fjölbreytni.“

Aðrir þættir sem snúa um vernd líffræðilegrar fjölbreytni eru meðal annars búsvæðaeyðing og loftslagsbreytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert