Vinnan við samningana rétt að byrja

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur í hönd Halldórs Benjamíns …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur í hönd Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, að lokinni undirritun kjarasamninga á dögunum. mbl.is/​Hari

„Ég er náttúrulega mjög sáttur við þessa niðurstöðu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um samþykkt kjarasamninga félagsins við Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda en þeir voru samþykktir með tæplega 90% atkvæða.

Ragnar bendir á í þessu sambandi að VR sé með breiðustu samsetninguna af félagsmönnum af verkalýðsfélögum almennt, félagið sé þannig með nánast alla launa- og menntaflóruna, og í því ljósi sé tæplega 90% niðurstaða mjög ásættanleg. Þá hafi þátttakan, 20,85%, verið ágæt bæði miðað við kjörsóknina í öðrum verkalýðsfélögum og sögu félagsins.

„Þetta gefur okkur kannski líka ákveðna vísbendingu um að við séum á réttri leið. Mér kemur þetta svo sem ekki á óvart, það komu það margir félagsmenn VR að kröfugerðinni. Þetta voru með beinum og óbeinum hætti um 3.600 félagsmenn sem komu að gerð hennar sem við fórum síðan fram með gegn SA,“ segir Ragnar. Vitanlega hafi þó ekki allt náðst.

„Við hefðum viljað ganga lengra í ákveðnum málum og fá fleiri krónur og svo framvegis eins og alltaf er. En ég held að þessi niðurstaða sýni það að fólk sé sátt við þessa lendingu miðað við þær aðstæður sem sköpuðust í kjaraviðræðunum með falli WOW air og fleira.“

Verður ekki friður lengi verði sáttin rofin

Spurður um framhaldið segir Ragnar að í raun sé vinnan við kjarasamningana aðeins rétt að byrja. „Við þurfum núna að fylgja kjarasamningunum mjög fast eftir. Það verði öllu framfylgt af okkar viðsemjendum. Við höfum nú fengið beinar hótanir frá fyrirtækjum með beinum eða óbeinum hætti um að kljúfa þá sátt sem við töldum okkur vera að skapa við atvinnulífið um þessa vegferð við að ná niður til dæmis vaxtakostnaði og ef sú sátt verður rofin er alveg ljóst að það verður ekki friður á vinnumarkaði lengi, að samningum verður þá sagt upp við fyrsta tækifæri eða strax á næsta ári og að við munum þá sækja þær kjarabætur, sem við töldum okkur gefa eftir til þess að geta farið í þessa vegferð sem byggðist á trausti á milli aðila, mjög hart.“

„Ef einhver heldur að nú geti verkalýðshreyfingin geti hallað sér aftur á bak í stólunum og beðið í þrjú og hálft ár eftir næstu kjaraviðræðum þá er það mikill misskilningur. Öll vinnan er í sjálfu sér eftir. Það eina sem í sjálfu sér kemur sjálfkrafa er launaliðurinn en við verðum í raun að fylgja öllu öðru eftir. Sú vinna er þegar komin af stað og við erum búin að boða mjög þétta fundaröð núna á næstu vikum og mánuðum til þess að fylgja því eftir.“

mbl.is