Áfrýjar gæsluvarðhaldsúrskurðinum

Um 1.100 manns búa í Mehman í Norður-Noregi og hefur …
Um 1.100 manns búa í Mehman í Norður-Noregi og hefur málið haft mikil áhrif á samfélagið þar. Wikimedia Commons/Richard Mortel

Meintur samverkamaður Gunn­ars Jó­hanns Gunn­ars­sonar, sem grunaður er um að hafa skotið Gísla Þór Þórarinsson hálf­bróður sinn í Mehamn í Finnmörku aðfaranótt laugardags, hefur áfrýjað gæsluvarðhaldsúrskurði sem Héraðsdómur Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø felldi í gær.

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá þessu, en það greindi fyrr í morgun frá því að dómstóllinn hefði fallist á beiðni lögreglu um vikulangt gæsluvarðhald yfir manninum.

Maðurinn hefur hins vegar staðfast­lega neitað því að hafa komið ná­lægt mál­inu og brást ókvæða við einn­ar viku gæslu­v­arðhalds­kröfu lög­reglu. Fram kemur á vef NRK að hann hafi verið með Gunnari allt þar til þeir voru handteknir tæpum fimm tímum eftir að fyrsta tilkynning barst lögreglu um að karl­maður hefði verið skot­inn í Mehamn.

Það var klukkan hálffjögur að íslenskum tíma aðfaranótt laugardagsins sem lög­regl­u barst tilkynning um að maður hefði verið skotinn. Lög­reglu­menn fóru á staðinn og fundu al­var­lega særðan mann. Haf­in var end­ur­lífg­un sem ekki skilaði ár­angri. Skömmu eft­ir klukk­an átta um morg­uninn fékk lög­regl­a svo ábend­ingu um að bif­reið hefði verið ekið ofan í skurð skammt frá Gam­vik og eru mennirnir tveir sagðir hafa verið í bifreiðinni.

Greint var frá því í gær að Gunn­ar hefði verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og að hann hefði samþykkt úr­sk­urðinn þegar héraðsdóm­ari innti hann álits.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert