Losun frá flugi og iðnaði eykst áfram

Heildarlosun íslenskra flugfélaga, innan EES-landa, var 820.369 tonn koltvísýringsígildi í …
Heildarlosun íslenskra flugfélaga, innan EES-landa, var 820.369 tonn koltvísýringsígildi í fyrra. AFP

Raunlosun íslenskra flugrekenda og losun frá íslenskum iðnaði hélt áfram að aukast í fyrra. Þetta kemur fram í frétt á vef Umhverfisstofnunar sem segir fjóra af fimm íslenskum flugrekendum hafa gert upp heimildir sínar. Fimmta flugfélagið, sem er WOW air, skilaði losunarskýrslu, en gerði ekki upp losun sína í tæka tíð. Líkt og kunnugt er varð flugfélagið gjaldþrota í mars á þessu ári.

Heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið var 820.369 tonn koltvísýringsígilda í fyrra en árið 2017 var hún 813.745 tonn, sem jafngildir 0,8% aukningu losunar milli ára. Uppgerðar losunarheimildir í flugi voru öllu minni, eða 542.244 tonn koltvísýringsígilda.

Þessar tölur taka þó ekki til heildarlosunar flugrekenda, heldur eingöngu til losunar innan EES-svæðisins og er því Ameríkuflug til að mynda ekki innan gildissviðs kerfisins.

Kort/Umhverfisstofnun

Losun í iðnaði jókst um 1,26% milli ára

Sjö rekstraraðilar iðnaðar hafa einnig gert upp losunarheimildir sínar og jókst losun í iðnaði um 1,26% milli ára. Fór hún úr 1.831.667 tonnum af koltvísýringi árið 2017 í 1.854.715 tonn af koltvísýringi í fyrra.

Fjöldi rekstraraðila hélst óbreyttur milli ára, þar sem kísilver United Silicon var ekki með losun í fyrra, en þá hóf kísilver PCC á Bakka starfsemi sína.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda er almennt nefnt ETS (e. Emission Trading System) og gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum. Kerfið nær utan um 45% af losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB og hefur það markmið að árið 2020 verði losun í þeim geirum sem falla undir kerfið 21% lægri en hún var árið 2005, og 43% lægri árið 2030.

Kort/Umhverfisstofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert