Datt aldrei í hug að þagga niður

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn Miðflokksins þökkuðu starfsfólki Alþingis fyrir að hafa staðið vaktina vel undanfarna daga og nætur. Þetta kom fram undir liðnum störf þingsins en umræða um þriðja orkupakkann stóð yfir í alla nótt og fram undir morgun. 

Forsætisnefnd Alþingis hefur ákveðið að bæta við þingfundum síðdegis á fimmtudag og föstudag ef á þarf að halda vegna umræðunnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, að því hvort hann gæti hagað tímastjórninni betur en gert hafi verið undanfarna daga. Sigmundur nefndi að þegar hann var í ríkisstjórn hafi vinstri fólk verið í stjórnarandstöðu og þeim hafi ekki dottið í hug að þagga niður í því eða reyna að fela það sem það hafði að segja með því að láta það tala kl. 5, 6, 7 eða 8 um morgun.

Hann sagði tímastjórnina ekki vera til þess fallna að skila tæmandi umræðum eða flýta störfum þingsins.

Steingrímur kvaðst þiggja „góð ráð frá mönnum með mikla skipulagshæfileika“ en að lítið annað sé hægt að gera en að lengja þingfundi þegar ræða þarf hlutina vel og lengi. Tók hann jafnframt undir að starfsfólk Alþingis eigi mikinn heiður skilinn fyrir dugnað og ósérhlífni.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Hari

19 klukkustunda umræður

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sagði 63% þjóðarinnar vera sammála flokknum varðandi þriðja orkupakkann og þess vegna vilji þeir tala við hópinn og sýna að hluti þingsins hlustar á það sem þjóðin hefur að segja.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, minntist á umræður gærdagsins hafi verið um nítján klukkustundir og lagði til að málið yrði tekið af dagskrá og og að utanríkismálanefnd myndi skoða hvort hægt yrði að svara einhverjum af þeim spurningum sem þingmenn Miðflokksins hafa kallað eftir.

Bergþór Ólason, fyrir miðju.
Bergþór Ólason, fyrir miðju. mbl.is/​Hari

Hrósuðu hver öðrum 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, lagði til að forseti Alþingis skyldi prenta út þær spurningar sem þingmenn flokksins hafa lagt fram að undanförnu og dreifa þeim til þingmanna, til að hvetja þá til að koma í pontu og liðka fyrir þingstörfum.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að fyrstu sólarhringana sem umræðan um þriðja orkupakkann stóð yfir hafi þingmenn stjórnarflokkanna tekið virkan þátt í umræðunum. Dregið hafi úr áhuga þeirra þegar þingmenn Miðflokksins notuðu tímann til hrósa hver öðrum og spyrja spurninga sem þeir sjálfir svöruðu. Slíkt sé ekki gefandi. „Efnislegri umræðu um málið var lokið áður en þetta málþóf Miðflokksmanna hófst,“ sagði hann.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Hari

„Algjörlega glatað dæmi“

Að loknum liðnum störf þingsins tók við liðurinn óundirbúinn fyrirspurnartími. Þar spurði Sigmundur Davíð efnahags- og fjármálaráðherra hvort hann hefði kynnt sér átta fyrirvara norska stórþingsins við þriðja orkupakkanum. Fyrirvararnir snúi að atriðum sem menn hafi haft miklar áhyggjur af hérlendis.

Bjarni Benediktsson sagði stöðuna ekki að öllu leyti sambærilega á Íslandi og í Noregi þar sem Noregur hefur tengst evrópska orkunetinu. Hann sagði að Alþingi hefði fengið málið í sínar hendur þegar Sigmundur var forsætisráðherra og spurði hann að því hvaða atriði það væru sem fullnægja ekki samanburðinum við Noreg.

Sigmundur sagði það vera öll atriðin og svaraði Bjarni því þannig að í hvert sinn sem efnisleg umræða um þriðja orkupakkann fari fram við þingmenn Miðflokksins „afhjúpa þeir sig með rakaleysinu“.

„Dæmið sem er tekið hér er það að Norðmenn hafi áskilið sér rétt til þess að ráða því sjálfir hvort þeir leggi sæstreng,“ sagði Bjarni og nefndi að verið væri að leggja fyrir Alþingi þingmál sem einmitt kveður á um að það sé Alþingis að ráða í framtíðinni hvort hér verði lagður sæstrengur eða ekki.

„Hvernig fær þingmaðurinn það út að við séum að gera þetta með allt öðrum hætti en norska þingið. Þetta er algjörlega glatað dæmi,“ sagði Bjarni.

mbl.is