„Þetta eru auðvitað ánægjuleg tíðindi“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

„Þetta eru auðvitað ánægjuleg tíðindi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum hennar við þeirri ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í morgun að lækka vexti um 0,5% í 4%.

„Við vonuðumst vitanlega til þess að þessi nálgun á kjarasamninga, sem við kynntum á sínum tíma í Ráðherrabústaðnum, það er að segja að við værum að horfa á annars vegar upplegg kjarasamninga eins og aðilarnir lentu sín á milli og hins vegar að stjórnvöld greiddu fyrir þeim með ýmsum þáttum sem hafa áhrif á lífskjör og birtast kannski ekki í launatölunum heldur snúast um lífskjör í lægra húsnæðisverði, lengra fæðingarorlofi o.s.frv.,“ segir Katrín ennfremur og bætir við:

„Við auðvitað bundum vonir við að þessir langtímasamningar og allar þessar samþættu aðgerðir myndu skila umhverfi til vaxtalækkunar. Þannig að það er ánægjulegt að sjá ekki aðeins vaxtalækkunina heldur að heyra það í rökstuðningi seðlabankastjóra að lífskjarasamningarnir hafi skipt þarna verulegu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert