Fjórir í varðhaldi vegna fíkniefnamáls

Málið kom upp á Keflavíkurflugvelli þann 12. maí síðastliðinn og …
Málið kom upp á Keflavíkurflugvelli þann 12. maí síðastliðinn og sitja fjórir íslenskir menn í varðhaldi vegna þess. mbl.is/Eggert

Fjórir Íslendingar sitja í gæsluvarðhaldi vegna gruns um fíkniefnainnflutning, en málið kom upp á Keflavíkurflugvelli 12. maí síðastliðinn.

Samkvæmt því sem fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld varðar málið innflutning á yfir tíu kílóum af kókaíni, en það vildi lögregla ekki staðfesta, hvorki við Stöð 2 né mbl.is þegar leitað var eftir því.

Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum, staðfesti við Stöð 2 að málið ætti uppruna sinn í Frankfurt í Þýskalandi og lögreglan á Suðurnesjum væri nú í samstarfi við þýsk lögregluyfirvöld, tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um rannsókn málsins, sem er umfangsmikil.

Hann sagði jafnframt, samkvæmt frétt Stöðvar 2, að lögregla hefði lagt hald á umtalsvert magn fíkniefna og fjármuna í tengslum við málið.

Ef rétt reynist að um sé að ræða meira en tíu kíló af kókaíni, eins og fullyrt var í kvöldfréttum Stöðvar 2, er ljóst að um er að ræða eitt mesta magn af efninu sem náðst hefur í einu hér á landi.

Samkvæmt svörum sem mbl.is fékk frá lögreglunni á Suðurnesjum er ekki hægt að bæta neinu við það sem fram kom í þeim svörum sem Jón Halldór veitti Stöð 2 vegna málsins. Unnið er að umfangsmikilli rannsókn.

mbl.is