Stefnt fyrir 42 milljóna fjársvik

Stefnan gegn manninum verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Stefnan gegn manninum verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok júní. mbl.is/Ófeigur

Karl­manni á sex­tugs­aldri, sem dæmd­ur var í 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa fengið 87 ára gaml­an Alzheimer-sjúk­ling til að milli­færa á hann 42 millj­ón­ir, hefur verið stefnt af erfingjum mannsins. Stefnan var birt í Lögbirtingablaðinu fyrir helgi, en hinn dæmdi, sem talinn er er hafa flutt lögheimili sitt til Þýskalands, hefur ekki fundist þrátt fyrir mikla eftirgrennslan.

Hinn dæmdi hlaut upphaflega 9 mánaða dóm í Héraðsdómi Austurlands fyrir misneytingu, en Hæstiréttur þyngdi dóminn svo í 12 mánaða fangelsi árið 2017. Níu mánuðir af dóminum voru skilorðsbundnir. Maðurinn sem millifærði féð lést eftir að aðalmeðferð lauk fyrir héraðsdómi.

Hinn dæmdi og maður­inn þekkt­ust vel og var hinn dæmdi gest­ur á heim­ili manns­ins reglu­lega um ára­tuga­skeið. Milli­færsl­urn­ar á fjár­mun­un­um voru fram­kvæmd­ar eftir að sjúkdómseinkenni Alzheimer-sjúklingsins höfðu versnað. Hinn dæmdi fullyrti upphaflega að um gjöf hefði verið að ræða, en breytti síðar skýringu sinni og sagðist hafa fengið féð að láni.

Héraðsdóm­ur taldi að hinum dæmda hafi átt að vera ljóst um ástand sjúklingsins og að hann hefði ekki getu til að taka ákvörðun um að ráðstafa svo mikl­um fjár­mun­um, sem voru stærri hluti eigna hans. Sagði í dóm­in­um að maður­inn hafi verið „óhæf­ur um að fara með fjár­muni sína og taka þær fjár­hags­legu ákv­arðanir sem hér um ræðir upp á eig­in spýt­ur, hvað sem líður auðsæj­um hlýhug hans til ákærða.“

Hinum dæmda var gert að greiða dán­ar­búi manns­ins 42 millj­ón­ir auk vaxta, en maðurinn hafði áður en dómur féll í Hæstarétti verið úrskurðaður gjaldþrota. Engar eignir fundust í búinu en að því er fram kemur í stefnunni greindi maðurinn skiptastjóra frá því  að hann hefði selt allt sitt, farið til Flórída „og haft það gott þar“.

Fram kom í dómi Hæstaréttar á sínum tíma að hinn dæmdi hafi ekki end­ur­greitt upp­hæðina að neinu leyti. Fram kemur þó í stefnunni að hann hafi margítrekað að hann væri borgunarmaður fyrir láninu og hafi boðist til að greiða alla upphæðina aftur áður en málið fór fyrir Hæstarétt. Lagði hann til að greiddar yrðu 2 milljónir króna í upphafi og svo hálf milljón á mánuði næstu árin. Þannig yrði krafan að fullu greidd á 6 eða 7 árum.

Erfingjar höfnuðu hins vegar þeirri tillögu þar sem engar tryggingar voru settar fyrir greiðslu og þá grunaði hinn dæmda um græsku. 

Fram kemur í stefnunni að þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan þar sem m.a. hafi verið leitað aðstoðar Þýsk-Íslenska verslunarráðsins, innheimtuþjónustu, þýskrar lögmannsstofu og flugfélagsins sem hinn dæmdi starfi hjá, hafi ekki tekist að hafa uppi á honum. 

Stefnan verði því þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert