Vísa kjaradeilu til Ríkissáttasemjara

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands. mbl.is/Eggert

Starfsgreinasamband Íslands og Efling hafa vísað kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga til Ríkissáttasemjara. Af hálfu SGS og Eflingar kemur ekki til greina að halda viðræðum áfram nema að lífeyrisréttindi starfsfólks sveitarfélaganna innan ASÍ verði jöfnuð í samræmi við fyrri loforð. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu.

Þar kemur fram að viðræður Starfsgreinasambandsins og Eflingar við Samband íslenskra sveitarfélaga um nýjan kjarasamning hafi staðið yfir undanfarnar vikur með fimm formlegum fundum.

Fyrir utan kröfugerð aðila um eðlilegar kjarabætur í samræmi við samninga á almenna markaðnum og önnur mál, hafa verkalýðsfélögin krafist þess að Samband sveitarfélaganna efni samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda fyrir starfsfólk sveitarfélaga innan aðildarfélaga ASÍ. Um þessa eðlilegu jöfnun hefur nú þegar verið samið við Reykjavíkurborg og ríkið fyrir hönd þessa hóps,“ kemur fram í tilkynningu.

Það hafi því komið mjög á óvart þegar fulltrúar sveitarfélaganna neituðu með öllu að ræða það sem kallað er eðlilega jöfnun þrátt fyrir fyrri fyrirheit þar að lútandi í tengslum við kjarasamninga 2015 og vilji ekki kannast við fyrri samþykktir.

Í síðustu kjarasamningum voru sérstaklega tekin frá 1,5% til að jafna lífeyrisréttindin. Það er ótrúlegt að sveitarfélögin telji það eðlilegt að félagsmenn okkar búi við lökustu lífeyriskjörin í landinu,“ kemur fram í tilkynningunni. Ekkert annað sé í stöðunni en að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka