Vendipunktur varðandi uppsagnir

Ferðamenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Ferðamenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

Reikna má með að síðla sumars verði vendipunktur varðandi mögulegar uppsagnir í ferðamannaiðnaðinum hérlendis.

Þetta segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur í hagfræðideild Landsbankans. Hann nefnir að uppsagnir Icelandair á tugum flugmanna í síðustu viku hafi verið viðbrögð vegna haustsins og kyrrsetningar 737 MAX-vélanna. Þegar menn sjá síðar í sumar hvernig veturinn spilast gæti uppsögnunum í ferðamannaiðnaðinum fjölgað.

Engin „katastrófa“

„Ég geri ekki ráð fyrir neinni „katastrófu“ en það seytla inn einhverjar uppsagnir hér og þar, því miður,“ segir Sveinn en bætir við að ekki sé of seint fyrir flugfélög að grípa framboðið fyrir næsta vetur. Þau myndu þá hugsanlega hlaupa í skarðið fyrir Easy Jet og Delta sem hafa bæði dregið úr starfsemi sinni hérlendis. „Þetta er hreyfing sem hefur alltaf verið fram og til baka og mun alltaf vera,“ segir hann um ákvarðanir flugfélaganna.

mbl.is/Eggert

Ekki gott að Icelandair sitji eitt að flugi 

Sveinn sér ekki að tíðindin vegna Easy Jet og Delta muni hafa miklar breytingar í för með sér hér á landi þó svo að alltaf sé slæmt þegar svona ákvarðanir eru teknar og framboðið minnkar. Til að mynda telur hann ekki gott að Icelandair sitji eitt að flugi til New York í vetur. Vafalaust hafi erlendu flugfélögin reynt að selja flugferðir hingað en það ekki gengið nógu vel. „Þessi flugfélög eru mjög dugleg við að taka burt framboð og koma svo aftur með framboð, bara eftir því hvernig þau skynja markaðinn.“

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum.
Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Næsti vetur gæti orðið erfiður

Að sögn Sveins hefur árstíðarsveiflan aukist eftir að WOW air fór á hausinn og því gæti næsti vetur orðið erfiður. WOW air hafi sótt inn á Bandaríkjamarkað með lágum flugfargjöldum en venjulega hafi Bandaríkjamenn ekki verið duglegir að heimsækja Ísland að vetri til. „Það er kannski helst sá slaki sem enginn sér sér fært um að ná í á meðan það er alltaf góð eftirspurn eftir Íslandi á sumrin,“ segir Sveinn sem telur þróunina í fluginu annars hafa verið svipaða og hann reiknaði með eftir fall WOW air.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert