Valdheimildin nær ekki til bílasölu

Bílaleigan Procan viðurkenndi að hafa átt við kílómetrastöðu bíla áður …
Bílaleigan Procan viðurkenndi að hafa átt við kílómetrastöðu bíla áður en þeir voru seldir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samgöngustofa ítrekar að hún hafi ekki lagaheimild til að svipta Procar starfsleyfi vegna þess að fyrirtækið hafði bætt úr þeim annmörkum sem Samgöngustofa gerði athugasemdir við; sem voru breytingar á kílómetrastöðu bíla fyrir sölu.

Fjallað er um málið í frétt á vef Samgöngustofu. Þar segir að vinna í málefnum ökutækjaleiga vegna mögulegra breytinga á kílómetratölu akstursmæla standi enn yfir.

Gera þarf skýran greinarmun á annars vegar starfsemi ökutækjaleigu í samræmi við lög um ökutækjaleigur á grundvelli starfsleyfis og hins vegar endursölu ökutækja á almennum markaði. Samgöngustofa hefur eingöngu valdheimildir gagnvart hinu fyrra. Hin meintu brot áttu sér að meginstefnu til stað við endursöluna og eru þau til skoðunar hjá lögreglu,“ kemur fram á vef Samgöngustofu.

Fram kom á vef RÚV fyrr í dag að hátt í 20 kærur liggi fyrir á hendur Procar en leigan viðurkenndi að hafa átt við kílómetrastöðu bíla áður en þeir voru seldir.

Samgöngustofa bendir á að samkvæmt lögum um ökutækjaleigur skuli hún senda leyfishafa skriflega viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu leyfis þar sem tilefnið er tiltekið og leyfishafa veitt ráðrúm til úrbóta.

Fram kemur að ökutækjaleiga hafi gengist við breytingum á kílómetrastöðu. Í því tilfelli hafi Samgöngustofa sent leigunni viðvörun þar sem greint var frá því að fyrirhugað væri að fella niður leyfi félagsins. 

Þar sem þessi tiltekna ökutækjaleiga hafði sannanlega bætt úr annmörkum með því m.a. að bæta innra eftirlit þannig að þetta myndi ekki endurtaka sig var litið svo á að stofnunin hefði ekki lagaheimild til þess að framkvæma sviptinguna. Hins vegar sendi Samgöngustofa öll gögn málsins til lögreglu sem nú hefur málið undir höndum,“ segir á vef Samgöngustofu.

mbl.is