Procar ekki svipt starfsleyfinu

Bílaleigan Procar verður ekki svipt starfsleyfi sínu að svo stöddu.
Bílaleigan Procar verður ekki svipt starfsleyfi sínu að svo stöddu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bílaleigan Procar verður ekki svipt starfsleyfi sínu að svo stöddu, þar sem tillögur fyrirtækisins að úrbótum voru taldar fullnægjandi að mati Samgöngustofu. Þetta var haft eftir lögmanni fyrirtækisins í kvöldfréttum RÚV, en þar kom einnig fram að lögreglurannsókn á máli fyrirtækisins er komin í hendur embættis héraðssaksóknara, sökum umfangs.

Tæpir fjórir mánuðir eru frá því að upp komst um umfangsmikið svindl bílaleigunnar, sem stundaði það að færa niður kílómetrastöðu bifreiða sinna.

Forsendur sviptingar „ekki til staðar“ í regluverkinu

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir í samtali við mbl.is að komið hafi í ljós við úrvinnslu málsins að lagaramminn hafi ekki verið „eins víðtækur og ætla mætti“ en segir að við vinnsluna á máli Procar hafi regluramminn verið „nýttur eins og hægt er.“

Hún staðfestir að það sé rétt sem komi fram í frétt RÚV, Procar hafi ekki verið svipt leyfi af hálfu Samgöngustofu.

„Forsendur fyrir slíkum aðgerðum voru ekki til staðar í regluverkinu, miðað við ætluð brot,“ segir Þórhildur Elín.

mbl.is