Hraðaksturinn reyndist dýrkeyptur

Lögrelan á Suðurnesjum hefur átt í nógu að snúast síðustu …
Lögrelan á Suðurnesjum hefur átt í nógu að snúast síðustu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum kært á annan tug ökumanna fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 150 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund og reyndist það dýrkeypt, en maðurinn, sem var erlendur ferðamaður, þurfti að greiða 157.500 krónur í sekt.

Í tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur einnig fram að afskipti voru höfð af ökumanni sem ók ógætilega á vespu og reyndist viðkomandi hafa verið svipt ökuréttindum auk þess sem hún játaði áfengisneyslu og var grunuð um um fíkniefnaneyslu. Var konan handtekin og færð á lögreglustöð.

Þá framvísaði einn ökumaður ökuskírteini í viðræðum við lögreglumenn og við athugun kom í ljós að sá hinn sami hafði verið sviptur ökuréttindum fyrir löngu en ekki skilað skírteini sínu inn eins og honum bar. Var skírteinið því haldlagt. Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af nokkrum bifreiðum sem reyndust óskoðaðar eða ótryggðar.

Valtur á fótunum

Nokkrir ökumenn hafa einnig verið staðnir að vímuefnaakstri á síðustu dögum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum.

Einn þeirra, erlendur ferðamaður, var valtur á fótunum þegar hann gekk að lögreglubifreiðinni til viðræðna við lögreglumenn. Hann viðurkenndi að hafa fengið sér ærlega í staupinu áður en hann settist undir stýri. Hann greiddi 157.500 krónur í sekt áður en hann hélt af landi brott morguninn eftir.

Annar erlendur ferðamaður sem var á leið að Flugstöð Leifs Eiríkssonar reyndist einnig hafa innbyrt umtalsvert magn áfengis og þurfi einnig að greiða 157.00 krónur í sekt.

mbl.is