Erfiðir tímar án Jóns Þrastar

Jón Þröstur á gangi skömmu eftir að hann gekk út …
Jón Þröstur á gangi skömmu eftir að hann gekk út af hóteli sínu. Mynd/Úr öryggismyndavél

Jana Guðjónsdóttir, unnusta Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf sporlaust í Dublin á Írlandi í febrúar, biðlaði til áhorfenda sjónvarpsþáttarins Crimecall í kvöld að láta lögregluna vita ef þeir hafa einhverjar upplýsingar sem tengjast hvarfi hans. 

„Ég sakna hans svo mikið,“ sagði hún grátandi, að því er RTÉ greindi frá „Ef þið vitið eitthvað, skuluð þið endilega hafa sambandi við Gardaí [írsku lögregluna].“

Í þættinum sagði Jana það ólíkt Jóni að hverfa án þess að láta hana vita. Bætti hún við að fjölskyldan hefði hefði gengið í gegnum ótrúlega erfiða tíma. „Ég reyni alla daga að vera sterk fyrir börnin okkar. Þau sakna hans svo mikið og gráta á næturnar,“ sagði hún.

Næstum fimm mánuðir eru liðnir frá hvarfi Jón Þrastar. Í þættinum Crimecall var einnig rætt við bróður hans Daníel en hann hefur áður komið í þáttinn með bróður sínum Davíð. „Ég veit ekkert hvað varð um bróður minn, þetta er óskiljanlegt. Einhver sá eitthvað…hann gekk framhjá fjölda fólks,“ sagði hann.

„Það myndi skipta okkur öllu máli að vita hvort hann er á lífi. Ef hann er ekki á lífi að vita þá hvar hann er, fara með hann heim og nær fjölskyldunni. Fólk gæti byrjað að lifa lífi sínu aftur.“

Jóns Þrastar hefur verið saknað í tæpa fimm mánuði.
Jóns Þrastar hefur verið saknað í tæpa fimm mánuði. Ljósmynd/Facebook
mbl.is