Hvílir sig fyrir þungan róður á suðurströnd

Veiga Grétarsdóttir.
Veiga Grétarsdóttir. mbl.is/RAX

„Þegar heilsan er orðin góð og veðrið er gott, þá er ég farin,“ segir kaj­akræðar­inn Veiga Grétarsdóttir sem rær um þessar mundir rangsælis í kringum landið. Veiga er búin að ljúka um þriðjungi leiðarinnar en er nú komin til Reykjavíkur þar sem hún hyggst hvíla sig um stund í kjölfar veikinda. 

Veiga lagði upp frá Ísafirði þriðjudaginn 14. maí og kom til Víkur í Mýrdal um helgina. Hún sigldi til Víkur frá Landeyjarhöfn, en hafði þar á undan tekið sér nokkurra daga frí sökum veikinda og lúsmýs, en eftir komuna til Víkur ákvað hún að fara til Reykjavíkur og ná sér almennilega. „Ég er bara að jafna mig núna.“

Veiga segist ætla að hvíla sig eins lengi og hún þurfi en að um leið og heilsa og veður leyfi ætli hún aftur af stað og tekur þá erfiðasti kafli leiðarinnar við, suðurströndin. 

„Það er leiðinda spá núna næstu daga, sem er bara ágætt kannski. Svo sýnist mér hún líta vel út um helgina og þá er bara planið að kýla á þetta aftur. Bara um leið og ég get. Ég ætla að reyna að klára suðurströndina í einum rykk ef það kemur veðurgluggi. Þá kýlir maður bara á hann og reynir að róa sem mest á hverjum degi,“ segir Veiga.  

„Þetta er erfiðasti kaflinn, frá Vík að Höfn. Þetta er eiginlega kaflinn sem er ástæða þess að svona fáir róa í kringum Ísland, suðurströndin. Það er svo brimþungt.“

Þá segist Veiga heyra nánast daglega í Guðna Páli Viktorssyni, sem reri hringinn í kringum landið árið 2013, auk þess sem hún er í góðu sambandi við Landhelgisgæsluna til að gæta öryggis síns, en voðinn er vís í miklu brimi ef ekki er farið gætilega. 

mbl.is