Mikil aðsókn í tölvuleikjanám

ÍSlensk ungmenni virðast sýna námi í tölvuleikjagerð mikinn áhuga. Iðnaðurinn …
ÍSlensk ungmenni virðast sýna námi í tölvuleikjagerð mikinn áhuga. Iðnaðurinn fer hratt vaxandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls bárust 92 umsóknir í nýja námsleið til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð hjá Keili. „Það má segja að aðsóknin sé framar væntingum þar sem þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem þetta nám er í boði,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, í samtali við mbl.is.

Sviðsstjórinn segir jafnframt meðalveltu leikjaiðnaðarins síðustu tíu ár hafa verið um átta milljarðar króna og að stærsti hluti þeirrar veltu hafa verið sölutekjur erlendis frá. „Það má segja að þetta séu útflutningstekjur og það má benda á að þetta sé sá afþreyingariðnaður á heimsvísu sem er að vaxa hraðast.“

„Það sem stendur leikjaiðnaði og hugverkaiðnaði fyrir þrifum er skortur á sérfræðingum,“ segir hún og bætir við að námið sé mikilvægur liður í að auka alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands og ekki síst grunnur í að auka útflutningstekjur landsins til framtíðar. „Það er gríðarlega jákvætt hversu mikinn áhuga ungt fólk virðist hafa á þessu námi.“

Á Íslandi starfa um þrjú hundruð einstaklingar við tölvuleikjagerð og eru fyrirtækin nú 19, en aðeins þrjú tölvuleikjafyrirtæki voru á landinu fyrir tíu árum, að sögn Sigríðar.

Árið 2018 jókst velta tölvuleikjaiðnaðarins á heimsvísu um 18% miðað við 2017 og var 43,8 milljarðar bandaríkjadalir, jafnvirði 5,5 þúsund milljarðar íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum Entertainment Software Association. Til samanburðar var velta kvikmyndaiðnaðarins 41,7 milljarðar bandaríkjadalir, jafnvirði 5,2 þúsund milljarðar íslenskra króna.

„Þetta hefur verið eitt helsta baráttumál Samtaka leikjaframleiðenda á síðustu árum og hefur verið í burðarliðunum í nokkur ár. Í byrjun árs var gert samkomulag við menntamálaráðherra um þessa nýju leikjabraut – stúdentspróf í leikjagerð – og í kjölfarið hófst undirbúningur að náminu,“ útskýrir hún.

mbl.is