Bjarni Har fyrsti heiðursborgari Skagafjarðar

Bjarni fékk heiðursborgaranafnbót frá fulltrúum sveitarstjórnar, þeim Stefáni Vagn Stefánssyni, …
Bjarni fékk heiðursborgaranafnbót frá fulltrúum sveitarstjórnar, þeim Stefáni Vagn Stefánssyni, Gísla Sigurðssyni og Regínu Valdimarsdóttur. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Bjarni Haraldsson kaupmaður var í dag útnefndur heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sá fyrsti eftir að sameinað sveitarfélag varð til í Skagafirði árið 1998. Gísli Sigurðsson, varaformaður byggðaráðs Skagafjarðar, tilkynnti þetta í ávarpi í fjölmennu 100 ára afmæli Verslunar Haraldar Júlíussonar. Var afmælið liður í bæjarhátíðinni Lummudögum í Skagafirði.

Sveitarstjórnin samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að útnefna Bjarna heiðursborgara sveitarfélagsins en hann verður níræður á næsta ári. Áður hafði Sauðárkrókskaupstaður útnefnt þrjá heiðursborgara, þá Jón Þ. Björnsson skólastjóra, Eyþór Stefánsson tónskáld og Svein Guðmundsson hrossaræktanda.

Bjarni Haraldsson ásamt eiginkonu sinni, Ásdísi Kristjánsdóttur, og börnum, þeim …
Bjarni Haraldsson ásamt eiginkonu sinni, Ásdísi Kristjánsdóttur, og börnum, þeim Lárusi Inga, Helgu (t.v.) og Guðrúnu Ingibjörgu. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Samþykkti sveitarstjórnin eftirfarandi tillögu um Bjarna:

„Bjarni Haraldsson, kaupmaður og bílstjóri, fæddist árið 1930 á Sauðárkróki og ólst þar upp. Bjarni hóf bifreiðaakstur ungur að árum er hann tók bílprófið árið 1948 og ók hann fyrst norðurleiðarrútu fyrir Norðurleið hf. á leiðinni Akureyri – Reykjavík. Árið 1954 stofnaði hann og rak sitt eigið vöruflutningafyrirtæki og tók að sér flutninga milli Sauðárkróks og Reykjavíkur.

Bjarni fór að vinna innanbúðar með föður sínum í Verslun Haralds Júlíssonar árið 1959 og þegar faðir hans féll frá árið 1973 tók hann við verslunarrekstrinum sem hann hefur starfrækt síðan. Verslun Haralds Júlíssonar, sem í daglegu tali er nú oft kölluð verslun Bjarna Har. er fyrir löngu orðin mikilvægur þáttur í menningarlífi Sauðárkróks og í ímynd allra Skagfirðinga sem dregur ferðamenn að, enda fáar ef nokkrar búðir sem hans eftir á Íslandi. Alkunnur er húmor Bjarna og tilsvör hans orðin landsþekkt, en Bjarni er með ríka þjónustulund og hefur gaman af því að spjalla við fólk og greiða götur þess.

Með því að sæma Bjarna Haraldsson heiðursborgaratitli vill Sveitafélagið Skagafjörður þakka Bjarna fyrir hans framlag til verslunar- og þjónustureksturs til íbúa sveitarfélagsins og gesta í um 70 ár og fyrir að gera skagfirskt samfélag enn betra."

Faðir Bjarna, Haraldur Júlíusson, hóf rekstur verslunarinnar 28. júní árið 1919, og eftir fráfall Haraldar árið 1973 tók Bjarni endanlega við rekstrinum, en hafði þá verið á bakvið búðarborðið meira og minna síðan 1959. Enn yngri var Bjarni farinn ásamt systur sinni, Maríu, að taka til hendinni og aðstoða foreldra sína, Harald og Guðrúnu I. Bjarnadóttur, við reksturinn.

Fjöldi fólks mætti í 100 ára afmælið, um 500-600 manns …
Fjöldi fólks mætti í 100 ára afmælið, um 500-600 manns þegar mest lét. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Ráðherra þakkaði Bjarna stuðninginn

Fjölmörg önnur ávörp voru flutt í afmælinu í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, þakkaði Bjarna fyrir áratugalangan stuðning en hann hefur verið einn helsti stuðningsmaður flokksins, sótt fjölda landsfunda og taldi Þórdís að líklega hefði enginn selt fleiri happdrættismiða fyrir flokkinn en Bjarni. Sló hún á létta strengi og taldi að andviði miðasölunnar á sínum tíma hefði dugað fyrir tveimur hæðum í byggingu Valhallar.

„Í fullri einlægni segi ég að það er ómetanlegt fyrir okkur, sem höfum valist í forystusveit á hverjum tíma, að hafa Bjarna Har og lífsskoðanir hans sem viðmið og ákveðinn kompás í starfi. Lífshlaup hans og framtak stendur nefnilega fyrir flest það besta sem sjálfstæðisstefnan snýst um. Bjarni Haraldsson er maður einkaframtaksins og kann því best að láta verkin tala, en um leið hefur hann alla tíð lagt mikið til samfélagsins, jafnt í félagsstörfum sem hvers kyns uppbyggingu. Greiðvikni er honum í blóð borin og standi einhver höllum fæti þá eiga menn vin í Bjarna. Framtak, dugnaður, samkennd og gleði. Þessir eðlisþættir Bjarna ættu í reynd að vera einkunnarorð allra ríkisstjórna. Að baki duglegra manna er alla jafna dugleg kona og þess vegna vil ég líka óska Dísu (Ásdísi Kristjánsdóttur, eiginkonu Bjarna) sérstaklega til hamingju með daginn," sagði Þórdís.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í afmælið og …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í afmælið og ávarpaði Bjarna á þessum merku tímamótum. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, flutti einnig ávarp og afhenti Bjarna gjöf frá fyrirtækinu en verslunin hefur verið umboðsaðili fyrir Olís og áður BP allt frá árinu 1930. Þá flutti Sölvi Sveinsson ræðu en hann ritaði gagnmerka grein um kaupmannshjónin Harald og Guðrúnu í Skagfirðingabók árið 2016, líkt og kom fram í umfjöllun Morgunblaðsins 20. júní sl. Þá fluttu ættingjar ávörp og rifjuðu upp kynni sín af Bjarna, foreldrum hans, og rekstrinum í versluninni. 

Tónlistarflutningur í veislunni var undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar, Róbert Óttarsson bakari mætti með stærðarinnar súkkulaðitertu og Lionsmenn grilluðu pylsur ofan í mannskapinn. 

Verslunin var að sjálfsögðu opin í dag og þar gátu afmælisgestir gert kjarakaup. Eldsneyti var á 30 króna afslætti og nýttu fjölmargir sér þau kjör.

Talið er að 500-600 manns hafi sótt 100 ára afmælisveisluna heim, sem haldin var við verslunina í Aðalgötu á Sauðárkróki og var án efa fjölsóttasta atriði Lummudaga.

Lummudögum í Skagafirði lauk í dag en auk afmælis Verslunar …
Lummudögum í Skagafirði lauk í dag en auk afmælis Verslunar Bjarna Har þá voru bílar Brunavarna Skagafjarðar til sýnis á Kirkjutorgi, markaður var í Aðalgötu og fjölmargt fleira á boðstólum. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson
Bjarni Haraldsson skar fyrstu sneiðina af afmælistertunni sem Róbert Óttarsson …
Bjarni Haraldsson skar fyrstu sneiðina af afmælistertunni sem Róbert Óttarsson bakarameistari bakaði í tilefni dagsins. mbl.is/Björn Jóhann Björnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert