Allir sýknaðir í CLN-máli

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson.
Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson. mbl

Þrír fyrrverandi stjórnendur Kaupþings voru í dag sýknaðir í annað skiptið í Héraðsdómi Reykjavíkur í CLN-málinu svokallaða, en það hefur einnig verið nefnt Chesterfield-málið. Þetta staðfestir Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar. Áður hafði Hæstiréttur ógilt niðurstöðuna og sent í hérað að nýju vegna nýrra upplýsinga sem komu fram varðandi greiðslu frá Deutsche bank upp á stóran hluta þeirra fjármuna sem talið var að hefðu glatast.

Stjórnendurnir þrír eru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. Ríkinu var gert að greiða samtals 13,1 milljón í málskostnað í þetta skipti.

Málið er eitt af svo­kölluðum hrun­mál­um, en í því voru stjórn­end­ur Kaupþings ákærðir fyr­ir umboðssvik með því að hafa lánað 508 millj­ón­ir evra frá ág­úst til októ­ber 2008 til tveggja fé­laga sem keyptu láns­hæfistengd skulda­bréf af Deutsche bank sem tengd voru skulda­trygg­inga­álagi Kaupþings. Sagði sak­sókn­ari að mark­miðið hefði verið að lækka skulda­trygg­inga­álag bank­ans.

Málið hef­ur farið fram og aft­ur í dóms­kerf­inu, en þegar það var tekið fyr­ir fyrst í héraðsdómi voru all­ir hinna ákærðu sýknaðir. Var mál­inu áfrýjað til Hæsta­rétt­ar, en áður en það var tekið fyr­ir þar komu fram nýj­ar upp­lýs­ing­ar um að Deutsche bank hefði greitt þrota­búi Kaupþings stór­an hluta upp­hæðar­inn­ar, eða 425 millj­ón­ir evra.

Þar sem ástæður greiðslunn­ar lágu ekki fyr­ir taldi Hæstirétt­ur að rann­saka þyrfti þessi atriði bet­ur þar sem það gæti haft þýðingu við mat á því hvort skil­yrðum umboðssvika væri full­nægt við ákvörðun um refsi­hæð ef skil­yrði fyr­ir sak­fell­ingu yrðu tal­in fyr­ir hendi. Var sýknu­dóm­ur­inn og meðferð máls­ins í héraði því ómerkt og mál­inu vísað heim í hérað til lög­legr­ar meðferðar á ný. Hóf ákæru­valdið því rann­sókn á mál­inu að nýju með það fyr­ir aug­um að fá glögga mynd af ástæðum þess að Deutsche bank greiddi þess­ar upp­hæðir til Kaupþings og fé­lag­anna tveggja.

Niðurstaða héraðsdóms þegar málið var aft­ur komið þangað á borð í fyrra var hins veg­ar að ákæru­valdið hefði ekki rann­sakað sem skyldi þau atriði sem Hæstirétt­ur taldi að rann­saka þyrfti. Var mál­inu því vísað frá héraðsdómi, en ákæru­valdið kærði þá niður­stöðu til Lands­rétt­ar.

Lands­rétt­ur úr­sk­urðaði svo um að héraðsdómi bæri að taka málið fyr­ir efn­is­lega og er meðal ann­ars vísað til þess að ákæru­valdið telji ekki að sam­komu­lagið um greiðslurn­ar frá Deutsche bank hafi þýðingu fyr­ir grund­völl máls­ins né við mat á því hvort skil­yrði umboðssvika séu upp­fyllt.

Frávísunarkröfur í sjö töluliðum

Allir ákærðu í málinu kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi og ástæður fyrir frávísunarkröfunum voru taldar upp í sex töluliðum. Töldu þeir meðal annars að með stofnun embættis sérstaks saksóknara hafi verið vikið frá almennri skipan mála við sakamálarannsókn og hafi það meðal annars verið gert til að sefa reiði almennings. Það hafi leitt til þess að álag hafi skapast á saksóknaraembættið sem það hafi ekki risið undir og ákærðu hefðu mátt gjalda þess.

Í öðrum og þriðja tölulið var því haldið fram að afskipti ráðamanna af hrunmálunum og umfjöllun fjölmiðla hafi verið svo óvægin og mikil að ákærðu hefðu ekki notið stjórnarskrárbundins rétts til að vera taldir saklausir uns sekt væri sönnuð auk þess sem ákæruvaldið hefði ekki gætt hlutlægnisskyldu við rannsókn og meðferð málsins.

Einnig fundu þeir að því að símtöl milli ákærðu og verjenda hafi verið hleruð og þeim ekki eytt, brotið hefði verið gegn rétti þeirra til að fá aðgang að gögnum málsins og loks að ákærðu hafi mátt sæta því að fleiri umfangsmikil sakamál hafi verið rekin samtímis á hendur þeim sem sé andstætt ákvæðum sakamálalaga og hafi valdið þeim erfiðleikum að hafa yfirlit yfir málin á hendur þeim og halda uppi vörnum.

Dómurinn taldi ekki tilefni til að vísa málinu frá dómi á þessum forsendum og vísaði meðal annars til dómafordæma. Hann taldi ekki slíka ágalla á málsmeðferð ákæruvaldsins að þeir réttlættu frávísun.

Ákærði Magnús byggði frávísunarkröfu einnig á því að ákæran á hendur honum væri svo vanreifuð að það bryti í bága við ákvæði sakamálalaga. Í henni hafi ekki verið útskýrt hvernig Magnús hefði lagt á ráðin um lánveitingarnar eða hvatt til þeirra að öðru leyti. Þá hafi í ákærunni ekki verið að finna röksemd þess efnis að hann hafi mátt vita að lánin væru veitt án trygginga eða að honum hafi verið ljóst að Hreiðar Már og Sigurður hefðu ekki heimild til lánveitinganna. Þá hafi ekki verið sýnt fram á auðgunarásetning hans.

Í dóminum er það viðurkennt að ákæran hefði mátt vera skýrari um þátt Magnúsar í málinu en þó var hún ekki talin svo óskýr að honum væri ómögulegt að halda uppi vörnum. Var þeirri kröfu um frávísun því einnig synjað.

Ásetningur til að lækka skuldatryggingaálag en ekki til auðgunar

Í niðurstöðukafla dómsins er það sagt ágreiningslaust að Kaupþing banki hafi lánað þeim félögum, sem nefnd eru í ákærunni, þær fjárhæðir sem þar eru tilgreindar og í ákærunni sé ferill lánanna rakinn. Því næst segir:

„Maður verður ekki sakfelldur fyrir umboðssvik nema hann hafi framið brotið af auðgunarásetningi [...]. Eins og rakið hefur verið voru lánin, sem ákært er út af, veitt til að kaupa skuldabréf af Deutsche Bank, en alkunna er að hann er í hópi stærstu og traustustu fjármálafyrirtækja heims.“

„Þá er einnig komið fram að kaupin á skuldabréfunum, að undirlagi Kaupþings á Íslandi og samkvæmt ráðleggingum Deutsche Bank, hafi verið til þess að reyna að lækka skuldatryggingaálag Kaupþings. Með öðrum orðum stóð ásetningur ákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar, með þessum viðskiptum til að hafa áhrif á skuldatryggingaálag Kaupþings til lækkunar. Það er hins vegar ekki ákæruefni málsins.“

Var það því niðurstaða dómsins að ósannað væri að ásetningur ákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar, hafi staðið til þess að misnota aðstöðu sína í auðgunarskyni með því að veita lán þau sem rakin voru í ákærunni.

„Af framangreindri niðurstöðu leiðir einnig að sýkna ber ákærða Magnús af ákæru fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Ákærðu verða því sýknaðir,“ segir í dóminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina