„Ómanneskjulegur“ þjónustusamningur

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir
Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

„Þjónustusamningurinn er ómanneskjulegur og engum bjóðandi. Ef ég vil komast í frí þarf ég að redda einhverjum fyrir mig og líka ef ég veikist eða slasast,” segir Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir sem sagði upp þjónustusamningi sínum á Vestfjörðum við Matvælastofnun nýverið. 

Hún var eini starfandi dýralæknirinn í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum með stofu á Ísafirði. Frá 1. júlí hefur enginn dýralæknir verið starfandi og enginn hefur sótt um starf dýralæknis til að taka við dýralæknaþjónustu Matvælastofnunar. 

Sigríður Inga bendir á að nauðsynlegt sé að breyta samningnum. Hún segir það ekki mönnum bjóðandi að vera á vakt allan sólarhringinn alla daga allan ársins hring. Sigríður hefur starfað sem dýralæknir í 20 ár á Ísafirði. Eftir að þjónustusamningarnir fluttust yfir til Matvælastofnunar árið 2011 hefur hún ekki tekið sér frí því enginn hefur leyst hana af.    

Þegar maður kulnar svona í starfi verður maður botnfrosinn,“ segir hún í samtali við mbl.is. Hún segir farir sínar heldur ekki sléttar af samskiptum sínum við MAST þegar hún slasaðist fyrir nokkrum árum. Í kjölfarið þurfti hún að vera frá í tvo mánuði vegna afleiðinganna en þá benti Mast henni á samninginn sem henni bæri fylgja. Hún hafi því ekki getað jafnað sig eftir slysið sem skyldi. Hún bendir á að þetta sé ómanneskjulegt. „Heldurðu að þú vitir fyrirfram að þú veikist eða lendir í slysi,“ spyr hún.

Sigríður sagði upp starfi sínu í mars. Hún furðar sig á seinagangi MAST og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að hafa ekki leyst þetta á þessum fjórum mánuðum. 

Mat­væla­stofn­un ger­ir þjón­ustu­samn­ing við dýra­lækna á tíu svæðum á land­inu í sam­ræmi við reglu­gerð nr. 846/​2011. Sigríður segist vita til þess að óánægja sé með samninginn innan hópsins en 1. nóvember næstkomandi rennur núgildandi samningur út. Samningurinn er gerður til fimm ára í senn.    

„Ég gat ekki beðið til 1. nóvember. Ég þarf frí og læt ekki bjóða mér þetta endalaust,” segir Sigríður. 

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir er með stofu á Ísafirði.
Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir er með stofu á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is