Galtarlón í Kverkfjöllum horfið

Myndin er tekin fyrir nánst sléttu ári síðan. Þá var …
Myndin er tekin fyrir nánst sléttu ári síðan. Þá var það blágrænt og fullt af ísjökum. Ljósmynd/Hermann Þór Snorrason

„Eitt fallegasta jökullón á Íslandi er Galtárlón í Efri Hveradal Kverkfjalla. Það liggur í 1700 m hæð inn af einu stærsta háhitasvæði landsins og er eins og greypt í norðurrönd Vatnajökuls. Þarna hef ég komið margsinnis og ávallt komið að lóninu með blágrænu vatni skreytt ísjökum. Þannig var það í fyrra - en um sl. helgi var það galtómt og hvorki vatn né ísjakar til staðar,“ segir Tómas Guðbjartsson læknir í færslu á Facebook.

Síbreytileg náttúra í Kverkfjöllum

Ljóst er að hlaupið hefur úr lóninu einhvern tímann í vetur eða vor því það var tómt þegar Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur var í ferð með Jöklarannsóknarfélaginu fyrir um mánuði síðan, segir einnig í færslunni sem fylgja magnaðar myndir til samanburðar.

„Náttúran í Kverkfjöllum er svo ofboðslega dýnamísk, þetta er eitt stærsta háhitasvæði landsins og allt fullt af fjöllum og lónum,“ segir Tómas Guðbjartsson í samtali við mbl.is.

Nú er lónið galtómt. Botninn á lóninu er fullt af …
Nú er lónið galtómt. Botninn á lóninu er fullt af hverum sem kraumar í. Ljósmynd/Tómas Guðbjartsson

Leið eins og landkönnuði

Tómas hefur stundað það að ganga á Kverkfjöll síðan hann var tvítugur að aldri og hefur jafnvel farið nokkrum sinnum á einu sumri. Hann hefur aldrei séð lónið tómt áður.

„Í fyrra var lónið óvenjufallegt, blágrænn litur á vatninu og ísjakar í því. Ég lék mér að því að hoppa milli jakanna. Nú var það galtómt. Þegar ég stóð þarna upp á fjallinu og horfi þarna yfir hélt ég að mér væri að missjást,“ segir Tómas.

Á síðasta ári lék Tómas sér að því að hoppa …
Á síðasta ári lék Tómas sér að því að hoppa milli ísjaka. Þeir eru nú horfnir. Ljósmynd/Hermann Þór Snorrason

„Tilfinning sem ég hef ekki fundið fyrir áður“

„Þess vegna löbbuðum við niður á botninn og þetta var svona smá eins og að labba á tunglinu. Þarna voru litlir hverir í botninum sem voru að krauma og manni leið svona eins og landkönnuði því það voru engin spor eða neitt og enginn hafði verið þarna áður. Þetta var tilfinning sem ég hef ekki fundið fyrir áður,“ bætir hann við.

Hann segir að dýnamíkin í Kverkfjöllum sé einmitt ástæðan fyrir því að hann hafi tekið ástfóstri við þeim. Náttúran sé sífellt að breytast og alltaf eitthvað nýtt að sjá og upplifa.

Að ganga á botni lónsins var eins og að ganga …
Að ganga á botni lónsins var eins og að ganga á tunglinu, því enginn hafði verið þar áður, segir Tómas Guðbjartsson. Ljósmynd/Tómas Guðbjartsson

Tæmdist árið 1998

„Fyrstu upplýsingar um Galtalón eru frá um það bil 1940. Það hefur gerst áður að lónið hefur tæmst og það var til dæmis tómt á árunum 1998 til 2005,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is.

Magnús var í Kverkfjöllum um það bil mánuði á undan Tómasi og sá það að lónið hafði tæmst. „Þetta lón hegðar sér svona. Þarna er mikill jarðhiti og þetta er jarðhitavatn og leysingavatn sem safnast þarna fyrir úr jöklinum. Það safnast fyrir í suður enda dalsins og að sunnan er lónið stíflað af jökli,“ útskýrir hann fyrir blaðamanni.

Lónið var fullt af ís í fyrra.
Lónið var fullt af ís í fyrra. Ljósmynd/Hermann Þór Snorrason

Ómögulegt að segja til um hvenær það fyllist á ný

„Svo gerist það að það fer að leka úr lóninu og stundum verður lekinn mikill og þá fer lónið að tæmast. Við vitum ekki af jökulhlaupi sem tengist þessu,“ segir hann og bætir því við að þetta sé öðruvísi en lónið Gengissig sem er aðeins austar en Galtarlón.

Hann segir enga leið að segja til um hvenær lónið kemur til með að fyllast af vatni aftur. „Síðast þegar það tæmdist þá var það tómt í sjö ár. Hvort það verður þannig núna er ómögulegt að segja.“

Lónið var einstaklega fallegt á þessum tíma á síðasta ári.
Lónið var einstaklega fallegt á þessum tíma á síðasta ári. Ljósmynd/Hermann Þór Snorrasonmbl.is