Tjá sig ekki um viðræðurnar

Samninganefnd sveitarfélaganna hyggst ekki tjá sig um stöðu kjaraviðræðna Sambands íslenskra sveitarfélaga við Starfsgreinasambandið umfram það sem fram hefur komið í fyrri yfirlýsingum frá nefndinni. Deilan lúti verkstjórn ríkissáttasemjara.

Mbl.is leitaði eftir viðbrögðum samninganefndar sveitarfélaganna vegna yfirlýsinga frá Starfsgreinasambandinu og Framsýn stéttarfélags, sem á aðild að sambandinu, þar sem komið hefur fram að deilan sé í hnút. Meðal annars vegna deilna um lífeyrismál að sögn Björns Snæbjörnssonar, formanns SGS, í samtali við mbl.is í gær.

Framsýn stéttarfélag og Eining-Iðja, sem bæði eiga aðild að SGS, vilja að farið verði í verkföll í haust ef ekki verður fallist á eingreiðslu til félagsmanna aðildarfélaga sambandsins meðan á viðræðum stendur eins og samið hafi verið um við önnur félög.

Forsvarsmenn stéttarfélaganna segja að samninganefndin hafi hafnað því að eingreiðsla verði greidd í tilfelli þeirra, sem einnig fæli í sér frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september, þar sem deilu þeirra hafi verið vísað til ríkissáttasemjara.

Fundað verður næst í kjaradeilunni hjá ríkissáttasemjara 21. ágúst.

mbl.is