Varðskipið í stað þyrlu vegna bilunar

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Tilfallandi bilun olli því að ekki var mögulegt að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja veikan mann um borð í farþegaskipi norðaustur af Horni í nótt. Var varðskipið Týr sent til móts við farþegaskipið sem fór með sjúklinginn til Ísafjarðar hvaðan hann var sendur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. 

Auðunn F. Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðarsviði Landhelgisgæslunnar, segir þyrluna nú vera komna í lag. 

„Það er bara búið að vera mikið að gera og bilanir og vesen sem er verið að vinna í og laga. Þetta er bara eins og gerist stundum hjá okkur,“ segir Auðunn. 

Maðurinn sem fluttur var með Tý var eldri maður með mögulega heilablæðingu. Auðunn segir það ekki hafa komið að sök að ekki hafi verið hægt að senda þyrlu.

„Þetta hefði ekki verið leyst hraðar með þyrlu þannig þetta var gert á besta mögulega hátt. Jafnvel hraðar heldur en ella með þyrlu.“

Skömmu fyrir miðnætti í gær hafði farþegaskipið samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð. Sjúkraflutningamenn Týs fóru svo ásamt lækni frá Ísafirði um borð í farþegaskipið rétt fyrir klukkan tvö í nótt og komið var með sjúklinginn í land á Ísafirði rétt fyrir sex í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert