„Hélt að dagar mínir væru taldir“

Veiga lenti illa þegar hún kom að landi skammt frá …
Veiga lenti illa þegar hún kom að landi skammt frá Höfn. Hún var næstum búin að stórslasa sig. Ljósmynd/Aðsend

Róðurinn hjá Veigu Grétarsdóttur hefur gengið vel síðustu daga eða allt síðan hún var næstum því búin að stórslasa sig þegar hún var að koma inn til Hafnar í Hornafirði. Hún lagði í hann frá Höfn á föstudag og ætlar sér að komast inn í mynni Fáskrúðsfjarðar í dag.

Veiga er því komin langt með róðurinn sem hófst þegar hún lagði af stað frá Ísafirði 14. maí.

„Það hefur gengið rosalega vel síðustu daga nema þegar ég var að koma að Höfn,“ segir Veiga. Hún átti um 16 kílómetra eftir af ferðinni þegar hvessti skyndilega og hún fékk suðvestanvindinn í fangið og þurfti því að sigla í land fyrr en ætlað var.

„Það gekk illa að lenda. Ég var næstum því farin fram fyrir mig og ef það hefði gerst þá hefði ég lent í fjörunni með hausinn og fengið bátinn ofan á mig,“ útskýrir Veiga og heldur áfram.

„Vinkona mín var að sækja mig ásamt vinkonu sinni. Sú var að taka þetta upp á myndband en hætti við því hún hélt að dagar mínir væru taldir þarna. Ég slasaðist ekki og slapp vel.“

Veiga var í námunda við Djúpavog þegar mbl.is náði tali af henni og ætlaði að ná inn í Fáskrúðfjörð í lok dags. „Ég þarf að vera komin inn í Reyðarfjörð í síðasta lagi á þriðjudaginn því ég er með fyrirlestur þar,“ tekur hún fram og segist bjartsýn á að það takist.

Fylgj­ast má með ná­kvæmri staðsetn­ingu Veigu og styrkja Pieta-sam­tök­in hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert