Býst við að smitum fjölgi ekki

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Ég býst við að þetta fari að fjara út í þessari viku ef allt virkar eins og maður vonast til að það geri,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir við mbl.is um E.coli-sýkingu sem hefur greinst hjá 19 börnum. 

Í dag var staðfest E.coli-smit hjá tveimur börnum til viðbótar. Þau eru tveggja og ell­efu ára göm­ul og höfðu bæði neytt íss í Efsta­dal II fyr­ir 4. júlí. 

Gripið var til aðgerða á Efstadal II 4. júlí síðastliðinn og eru því ellefu dagar liðnir frá þeim aðgerðum. Einkenni E.coli-sýkingar koma ekki alltaf strax fram. Bent er á að þeir einstaklingar sem fá niðurgang innan 10 daga eftir heimsóknina í Efstadal, sérstaklega ef ung börn eiga í hlut, eigi að hafa samband við heilsugæslu og senda saursýni í rannsókn fyrir bakteríunni sem um ræðir.

Enn berst fjöldi sýna til rannsókna. Niðurstöður úr þeim öllum liggja ekki fyrir, að sögn Þórólfs.

mbl.is