Þrestir klekktu á veðurfréttamönnum

Hreiðrið í mælinum. Ungarnir voru uppkomnir og engin egg voru …
Hreiðrið í mælinum. Ungarnir voru uppkomnir og engin egg voru í mælinum. Rigningin náði vart að smjúga í gegnum hreiðrið en þegar það var fjarlægt þá fyrst rigndi. Eða þannig. Ljósmynd/Veðurstofan

Þegar fulltrúi Veðurstofunnar fjarlægði þrastarhreiður úr regnmæli á Seyðisfirði féll alls konar ryk og drulla ofan í mælinn. Mælirinn túlkaði það sem rigningu og í kvöldfréttum var mesta rigning sögð á Seyðisfirði. Það féll hins vegar ekki dropi úr lofti þennan dag.

„Þetta var bara drulla og ryk sem féll til þegar ég var að taka hreiðrið úr mælinum. Þannig að þessi „mesta rigning“ kom bara öll á einni mínútu,“ segir Bjarki Borgþórsson í samtali við mbl.is. Hann er snjóeftirlitsmaður hjá Veðurstofunni og heldur við regnmælinum á svæðinu.

Bjarki Borgþórsson sér um viðhald á vissum mannvirkjum Veðurstofunnar á …
Bjarki Borgþórsson sér um viðhald á vissum mannvirkjum Veðurstofunnar á Seyðisfirði. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fer tvisvar á ári og tæmi hann, það eru yfirleitt bara frjókorn og laufblöð. Nú var þarna hreiður, þá höfðu þrestir komið upp ungum í mælinum. Það voru engin egg þarna,“ segir Bjarki.

Fréttirnar af hreiðrinu setja regnmælingar síðustu vikna í ákveðið uppnám. „Ég sá að það hafði ekki mælst nein rigning í vikunni,“ segir Bjarki, en samt hafi verið að rigna. Því hafi hann lagt leið sína að mælinum.

Bjarki varð ekki var við sökudólgana þegar hann átti leið um svæðið. Hitt er víst að „á næsta ári hef ég þetta á bak við eyrað og kíki fyrr á mælinn,“ segir Bjarki. 

Nú ætti mælirinn að hegða sér eðlilega þar sem hreiðrið er á bak og burt. Hann mun þá segja satt og rétt frá þeirri rigningu eða þeim þurrki sem hátíðargestir LungA þurfa að lifa við en hátíðin hófst um helgina, stendur út vikuna og nær hámarki næstu helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert