„Er undrandi á þessari niðurstöðu MDE“

Bragi Björnsson lögmaður
Bragi Björnsson lögmaður Ljósmynd/Aðsend

Niðurstaða Mannréttindadómstólsins í máli Júlíusar Þórs Sigurþórssonar, fyrrverandi starfsmanns Húsasmiðjunnar, gegn íslenska ríkinu er sigur í meginatriðum um rétt manna til að njóta sanngjarnrar málsmeðferðar og kallar á að Hæstiréttur endurskoði fyrirkomulag sitt. Hins vegar eru vonbrigði að dómstóllinn hafi ekki fallist á að dæma ríkið til greiða bætur í málinu. Þetta segir Bragi Björnsson, lögmaður Júlíusar, í samtali við mbl.is, en dómur MDE féll í morgun.

„Auðvitað fögnum við þessari niðurstöðu,“ segir  Bragi spurður um sín fyrstu viðbrögð. Hann var sjálfur að renna yfir dóminn þegar mbl.is náði tali af honum og sagðist eiga eftir að gaumgæfa hann í þaula sem og að kynna umbjóðanda sínum niðurstöðuna. Segir hann að í ljósi niðurstöðunnar verði framhaldið skoðað, meðal annars hvort farið verði fram á endurupptöku málsins fyrir íslenskum dómstólum, en Hæstiréttur dæmdi Júlíus í níu mánaða fangelsi árið 2015 fyrir hlutdeild sína í refsiverðu verðsamráði Húsasmiðjunnar, Byko og Úlfsins. Auk hans voru fimm aðrir starfsmenn fyrirtækjanna dæmdir í Hæstarétti, en aðeins einn hafði verið sakfelldur í héraðsdómi

Niðurstaða MDE var að brotið hefði verið gegn rétti sakborninga til sanngjarnrar málsmeðferðar þar sem Júlíus hafi ekki fengið að koma fyrir Hæstarétt sem vitni, þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi byggt á munnlegum vitnisburði hans fyrir héraði.

Íhuga þurfi breytingar á sakamálalögum

„Þessi niðurstaða kallar á endurskoðun á málmeðferð fyrir Hæstarétti,“ segir Bragi og bætir við að þetta snúist um að Hæstiréttur hafi ekki gefið sakborningum tækifæri á að tjá sig um sakarefnið.

Dómur Hæstaréttar féll áður en breytingar voru gerðar á íslenska réttarkerfinu með tilkomu Landsréttar. Kom þar til sögunnar áfrýjunarréttur þar sem skýrslur voru meðal annars teknar aftur af sakborningum. Bragi segir að þrátt fyrir nýtt dómstig telji hann eðlilegt að löggjafinn íhugi enn frekar hvort nauðsynlegt sé að skerpa enn frekar á ákvæðum laga um milliliðalausa sönnunarfærslu þannig að sakborningar geti komið fyrir Hæstarétt líka.

Engir reikningar þar sem ríkið hafði ekki rukkað

Bragi segir dóm MDE ekki vera fullnaðarsigur í málinu. Þannig hafi MDE ekki dæmt ríkið til greiðslu bóta, en Júlíus fór fram á um 10 milljónir vegna málskostnaðar fyrir íslenskum dómstólum. „Það er sérstakt í þessu máli að honum er ekki dæmt að hann eigi rétt á bótum því hann hafi ekki lagt fram kvittanir vegna málskostnaðar. En skýringin á því er að hið opinbera var ekki búið að rukka hann um málskostnað,“ segir Bragi. Upphæðin lá hins vegar alla tíð fyrir samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Situr uppi með 10 milljóna kostnað

Eftir að málið var lagt fyrir MDE er hið opinbera hins vegar búið að senda rukkun út. „Hann situr uppi með að þótt brotið hafi verið á honum muni hann þurfa að greiða um 10 milljónir í málskostnað fyrir íslenskum dómstólum,“ segir Bragi. Næstu skref séu að finna leiðir til að hið opinbera felli þann kostnað niður, enda hafi þeim verið ómögulegt að sýna fram á kvittanir þegar ekki var búið að rukka hann í málinu. „Ég er undrandi á þessari niðurstöðu Mannréttindadómstólsins,“ segir Bragi og bendir á að lögmennirnir hafi útskýrt rækilega fyrir MDE af hverju reikningar væru ekki til staðar.

Júlíus var einn af sjö sakborningum í verðsamráðsmálinu sem kærðu niðurstöðu Hæstaréttar til MDE. Bragi segir að þeir hafi sett málin upp á mjög svipaðan hátt til að auðvelda MDE að taka málin fyrir í einum pakka og því hafi það komið nokkuð á óvart að mál Júlíusar hafi verið tekið fyrir eitt og sér og dæmt fyrst í því. „Ég hefði búist við að dómur í máli allra yrði kveðinn upp á sama tíma.“

Gæti haft áhrif á önnur mál

Spurður hvort hann telji að niðurstaða þessa máls muni hafa áhrif á önnur mál sem Hæstiréttur hefur dæmt í og breytt niðurstöðu héraðsdóms segir Bragi að svo kunni að vera.

MDE komst í dag einnig að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn Styrmi Þór Braga­syni, fyrr­ver­andi for­stjóra MP banka, á sambærilegan hátt, þ.e. ekki látið hann njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir Hæstarétti þegar dómstóllinn sneri við dómi héraðsdóms.

mbl.is