Ríkið braut á starfsmanni Húsasmiðjunnar

Júlíus Þór var starfsmaður Húsasmiðjunnar og var dæmdur árið 2015 …
Júlíus Þór var starfsmaður Húsasmiðjunnar og var dæmdur árið 2015 í Hæstarétti fyrir hlutdeild í verðsamráði Húsasmiðjunnar og BYKO. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska ríkið braut á fyrrverandi starfsmanni Húsasmiðjunnar sem dæmdur var í níu mánaða fangelsi í Hæstarétti árið 2016 fyrir hlutdeild sína í refsiverðu verðsamráði í störfum sínum á árunum 2010 til 2011. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), en dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafi ekki fengið að njóta réttlátrar málsmeðferðar þar sem Hæstiréttur hafi snúið við dómi héraðsdóms og byggt á munnlegum vitnisburði fyrir héraðsdómi, án þess að hafa hlýtt á vitnisburðinn fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar var sem fyrr segir kveðinn upp árið 2016, en einn þeirra sem var sakfelldur, Júlíus Þór Sigurþórsson, kærði niðurstöðuna til MDE. 

Í rökstuðningi Júlíusar kom fram að hann teldi ríkið hafa brotið á sér með því að Hæstiréttur hafi endurmetið munnlegan vitnisburð þrátt fyrir að hafa ekki heimild til þess samkvæmt lögum. Ríkið taldi hins vegar að Hæstiréttur hefði byggt dóm sinn á gögnum málsins sem væru upptökur af símtölum og afrit af tölvupóstum. MDE féllst hins ekki á þá röksemdarfærslu ríkisins og bendir á að Hæstiréttur hefði getað vísað málinu aftur í hérað til meðferðar á ný.

Íslenska ríkið var ekki dæmt til að greiða neinar bætur til Júlíusar, en hann hafði farið fram á 10 milljónir, auk málskostnaðar á Íslandi upp á aðrar 10 milljónir. Taldi MDE að í dóminum sjálfum fælust nægar skaðabætur. Þá hefðu engar kvittanir um málskostnað verið lagðar fyrir dóminn og féllst MDE því ekki á að dæma Júlíusi bætur vegna þess.

Tólf starfs­menn BYKO, Húsa­smiðjunn­ar og Úlfs­ins bygg­inga­versl­un­ar voru upp­haf­lega ákærðir í mál­inu, en all­ir voru þeir sýknaðir fyr­ir héraðsdómi fyr­ir utan einn.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari gaf út ákæru í mál­inu í maí árið 2014 en fyr­ir­tæk­in þrjú voru grunuð um að hafa með sér verðsam­ráð. Dóm­ur var kveðinn upp í héraði í apríl árið 2015, en fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri bygg­inga­sviðs BYKO var sá eini sem var sak­felld­ur. Hann var þá dæmd­ur í eins mánaðar skil­orðsbundið fang­elsi.

Hæstiréttur sneri hins vegar dómi héraðsdóms og dæmdi sex starfsmenn BYKO og Húsasmiðjunnar fyrir refsivert verðsamráð. Var fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri hjá BYKO dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi og koll­egi hans hjá Húsa­smiðjunni í níu mánaða fang­elsi. Tveir fyrr­ver­andi vöru­stjór­ar Húsa­smiðjunn­ar voru þá dæmd­ir ann­ars veg­ar í níu mánaða fang­elsi og hins veg­ar í þriggja mánaða fang­elsi.

Fyrr­ver­andi versl­un­ar­stjóri timb­ursölu og fyrr­ver­andi sölu­stjóri fag­sölu­sviðs BYKO voru þá hvor um sig dæmd­ir til að sæta fang­elsi í þrjá mánuði.

Hæstirétt­ur staðfesti þá sýknu­dóm Héraðsdóms yfir tveim­ur mann­anna.

All­ir voru fang­els­is­dóm­arn­ir skil­orðsbundn­ir, nema í til­felli fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra BYKO, en fulln­ustu 15 mánaða af 18 mánaða refs­ingu hans var frestað skil­orðsbundið í þrjú ár.

Í tengslum við þetta mál hafði Samkeppniseftirlitið dæmt BYKO til að greiða 650 milljónir í sekt vegna samráðsins. Lækkaði héraðsdómur þá upphæð í 400 milljónir. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi hins vegar að lækka ætti sektina niður í 65 milljónir, en Landsréttur staðfesti að sektin ætti að vera 325 milljónir. Húsasmiðjan hafði áður viðurkennt sök í málinu og með sáttarsamkomulagi fallist á að greiða 325 milljónir.

Dómur Mannréttindadómstólsins í heild sinni.

mbl.is