Einn sakfelldur í verðsamráðsmáli

Byko og Húsasmiðjan.
Byko og Húsasmiðjan. mbl.is

Ellefu starfsmenn Húsa­smiðjunn­ar, Byko og Úlfs­ins bygg­ingar­vara voru í dag sýknaðir af ákæru sérstaks saksóknara en Steingrímur Birkir Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri byggingarsviðs Byko, var hins vegar dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari höfðaði málið á hend­ur starfs­mönn­unum í maí sl. vegna gruns um verðsam­ráð. Sak­born­ing­arn­ir neituðu all­ir sök í mál­inu.

Þórhallur Haukur Þorvaldsson, verjandi Leifs Arnar Gunnarssonar, markaðsfulltrúa Byko, sem var sýknaður í málinu, segist ánægður með niðurstöðuna. „Þetta er eins og lagt var upp með af okkar hálfu. Ákæran kom okkur í opna skjöldu og niðurstaðan er því í samræmi við væntingar,“ sagði Þórhallur í samtali við mbl.

Steingrímur var sakfelldur fyrir brot sem greint er frá í fjórða kafla ákærunnar og felst í hvatningu til verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar. Í ákærunni segir að hann hafi þann 28. febrúar 2011 upplýst Júlíus Þór Sigurþórsson, sem einnig var ákærður í málinu, um hvernig hann myndi haga tilboðsgerð Byko í grófvörum. Þá hvöttu þeir hvor annan til þess að stuðla að því að fyrirtækin tvö myndu ekki stunda samkeppni.

Alls verða um 90 milljónir króna greiddar úr ríkissjóði í málsvarnarlaun verjenda.

Þrjú ár í rannsókn

Málið, sem var í rann­sókn í rúm þrjú ár, var gríðarlega um­fangs­mikið og skjala­fjöld­inn tæp­lega fimm þúsund blaðsíður. Rann­sókn­in hófst í mars 2011 þegar Sam­keppn­is­eft­ir­litið og efna­hags­brota­deild rík­is­lög­reglu­stjóra fram­kvæmdu hús­leit­ir hjá Byko, Húsa­smiðjunni og Úlf­in­um - byggingar­vör­um. 

Í fyrstu voru 19 manns hand­tekn­ir en þeim sleppt að lok­um yf­ir­heyrsl­um. Rúmri viku síðar voru 15 manns hand­tekn­ir og færðir til frek­ari yf­ir­heyrslu. Loks voru þrett­án ákærðir. Aðrir sem hand­tekn­ir voru eru þó hugs­an­leg vitni í mál­inu að sögn sér­staks sak­sókn­ara. Sönn­un­ar­gögn í mál­inu eru meðal ann­ars tölvu­póst­ar og sím­töl á milli starfs­manna.

Hækkaði byggingarkostnað um milljarða

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á brotum Húsasmiðjunnar var lokið með sátt í júlí á síðasta ári þegar fyrrverandi rekstraraðili Húsasmiðjunnar viðurkenndi brot sín og samþykkti að greiða 325 milljónir króna í sekt vegna málsins. 

Þegar samið var um sektina sagði Bald­ur Björns­son, fram­kvæmda­stjóri Múr­búðar­inn­ar, í samtali við mbl.is að samráð fyrirtækjanna um verðlagn­ingu á bygg­inga­vör­um hefði hækkað bygg­ing­ar­kostnað um millj­arða króna, með til­heyr­andi vísi­tölu­hækk­un á lán­um heim­ila og fyr­ir­tækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK