Sekt Byko lækkuð um 75 milljónir

Málið snýst um um­fangs­mikið ólög­mætt sam­ráð Byko við gömlu Húsa­smiðjuna.
Málið snýst um um­fangs­mikið ólög­mætt sam­ráð Byko við gömlu Húsa­smiðjuna. mbl.is/Arnar Þór

Landsréttur hefur kveðið upp þann dóm að Norvik, móðurfélag Byko, skuli greiða 325 milljónir króna í sekt vegna brota gegn samkeppnislögum vegna verðsamráðs við gömlu Húsasmiðjuna á árunum 2010-2011.

Við dómsuppkvaðningu í Landsrétti núna kl. 14 kom fram að með þessu væri Landsréttur að breyta ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um upphæð sektarinnar, en sú ákvörðun hafði áður verið endurskoðuð af hálfu héraðdóms, sem komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að fyrirtækinu bæri að greiða 400 milljónir króna sekt í ríkissjóð fyrir brot sín.

Sekt fyrirtækisins er því lækkuð um 75 milljónir króna.

Málið snýst um umfangsmikið ólögmætt samráð Byko við gömlu Húsasmiðjuna. Árið 2015 tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun um að leggja 650 milljón króna sekt á fyrirtækið, eða öllu heldur móðurfélag þess Norvik, vegna samráðs sem stóð yfir á árunum 2010-2011 og fólst í því að fyrirtækin áttu í beinum reglulegum samskiptum þar sem veittar voru upplýsingar um verð, afsláttarkjör og stundum birgðastöðu á ákveðnum tegundum grófvara.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Byko til þess að greiða 400 milljónir króna í sekt með dómi sínum frá því í maí í fyrra, en með þeim dómi var niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að Byko hefði framið alvarlegt brot á samkeppnislögum staðfest og sektin hækkuð.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði þá áður tekið ákvörðun um að lækka 650 milljón króna sektina sem Samkeppniseftirlitið lagði upphaflega á Byko um 585 milljónir, niður í 65 milljónir.

Taldi áfrýjunarnefndin að brot Byko væri ekki jafn alvarlegt og Samkeppniseftirlitið hefði ákvarðað – fyrirtækið hefði einungis brotið gegn samkeppnislögum en ekki EES-samningnum eins og Samkeppniseftirlitið taldi.

Gamla Húsasmiðjan viðurkenndi sök sína í málinu og með sáttarsamkomulagi við Samkeppniseftirlitið árið 2014 féllst fyrirtækið á að borga 325 milljónir króna í sekt, sömu upphæð og Byko þarf að greiða samkvæmt dómi Landsréttar.

Auk þessara sektargreiðslna voru sex starfsmenn fyrirtækjanna tveggja dæmdir í Hæstarétti fyrir sinn þátt í verðsamráðinu og hlutu allir utan eins skilorðsbundna fangelsisdóma.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK