„Það er svo auðvelt að gefast upp“

Sigrún Þuríður Geirsdóttir kemur hér á land á Landeyjasandi eftir …
Sigrún Þuríður Geirsdóttir kemur hér á land á Landeyjasandi eftir sundið frá Eyjum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef verið með þetta sund í hausnum í einhver tvö ár. Síðan var gaman að geta gert þetta núna vegna þess að Eyjólfur Jónsson synti sömu leið í júlí árið 1959, fyrir sextíu árum. Þannig að það var skemmtilegt að gera þetta honum til heiðurs.“

Þetta segir Sigrún Þuríður Geirsdóttir í samtali við mbl.is en hún varð fyrst kvenna til þess að synda svokallað Eyjasund, frá Vestmannaeyjum og yfir á Landeyjasand, síðustu nótt. Sigrún lagði af stað klukkan rúmlega eitt í nótt og lauk sundinu fjórum og hálfum tíma síðar. Bátur fylgdi Sigrúnu eftir og var til taks ef eitthvað færi úrskeiðis en ekki reyndi á það. Eyjólfur Jónsson, einn þekktasti sundkappi Íslands, var frændi Sigrúnar.

Þegar blaðamaður heyrði í Sigrúni var hún tiltölulega nývöknuð enda hafði hún lagt sig eftir afrekið í nótt. Spurð hvers vegna hún hafi synt um nóttina segir Sigrún að það sé einkum vegna sjávarfallanna. Sjórinn sé yfirleitt rólegri að nóttu til.

Sigrún Þuríður Geirsdóttir sundkempa.
Sigrún Þuríður Geirsdóttir sundkempa. Af Facebook

„Það er bara oft gott að synda á nóttunni vegna þess að sjórinn er einhvern veginn lygnari, það er oft meiri ró yfir sjónum þá og enginn Herjólfur. Mér finnst oft gott að synda á nóttinni þegar það er meiri stilla. Þannig að ég valdi það að vera bara í rólegheitunum með náttúruöflunum,“ segir Sigrún.

Vel gekk í sundinu en á tímabili rak Sigrúnu til vesturs í stað austurs eins og gert hafi verið ráð fyrir sem leiddi til þess að henni varð óglatt og kastaði upp. Andlega hliðin skipti öllu máli við þessar aðstæður. „Hausinn á manni skiptir öllu máli. Það er svo auðvelt að gefast upp. Ég var náttúrulega bara ein þarna í sjónum og ekki í samskiptum við neinn þannig að maður verður að vera sinn eigin skemmtanastjóri.“

Kom á óvart að sjórinn væri ekki kaldur

Spurð hvort hún hafi orðið vör við líf í sjónum svarar Sigrún því neitandi. „Það voru höfrungar þarna nálægt mér lungann af leiðinni en ég varð sem betur fer ekki vör við þá. Ég vissi að þeir væru þarna, ég var búin að heyra að þeir væru sofandi vegna þess að þetta var að nóttu til, en þeir voru þarna fyrir aftan bátinn og við hliðina á honum og tóku víst nokkur flott stökk fyrir skipstjórann og áhöfnina. En ég sá þá aldrei sem betur fer.“

„Svona heilt yfir eftir á þá var þetta bara mjög gott sund og gekk þannig séð bara mjög vel,“ segir Sigrún. Ekki síst veðurfarslega. Veðrið hafi þannig verið gott og sjórinn spegilsléttur. Spurð hvort það hafi verið kalt svarar Sigrún því neitandi.

„Sjórinn var ekki kaldur, það kom mér á óvart. Þegar ég byrjaði að synda var hann 11,6 gráður og hann var nánast 12,6 alla leiðina yfir. Ég fann bara fyrir kulda þegar ég fór að kasta upp, þá náttúrulega dregur af manni. Þá fékk ég smá skjálfta. En ef ég hefði ekki kastað upp þá hefði ég ekki fundið neitt fyrir kuldanum.“

Framhaldið hjá Sigrúnu er boðsund með sundhópnum Marglyttunum yfir Ermasundið í september þar sem þær vilja vekja athygli á ekki síst plastmengun í sjónum. Sigrún synti þessa leið ein árið 2015 og var þá fyrsta íslenska kona til þess.

mbl.is