„Tek við mjög góðu búi“

Ásgeir Jónsson, tilvonandi seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson, tilvonandi seðlabankastjóri.

„Seðlabanki Íslands stendur vel og ég tek við mjög góðu búi hvað varðar efnahagsstjórnina og almenna stöðu þjóðarbúsins,“ segir dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur sem forsætisráðherra hefur skipað í stöðu seðlabankastjóra. Ásgeir tekur við starfinu 20. ágúst af Má Guðmundssyni sem gegnt hefur starfinu frá 2009.

„Að mörgu leyti hefur tekist mjög vel í efnahagslífinu og við erum í mjög góðri stöðu. Það er gott jafnvægi á gjaldeyrismarkaði og við eigum öflugan gjaldeyrisforða,“ segir Ásgeir. Verðbólga hefur haldist innan markmiða í þónokkur ár, en verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2,5% verðbólga, með skekkjumörk upp á 1,5% í hvora átt. Mælist verðbólga nú 3,1%.

Spurður um fyrstu verkefnin í embætti segir Ásgeir að ný lög um Seðlabankann taki gildi um næstu áramót. Þau gera ráð fyrir breytingum á stjórnskipulagi bankans og sameiningu við Fjármálaeftirlitið. Þessi verkefni blasi því við og það verði væntanlega helstu viðfangsefnin fram að áramótum að undirbúa þessar breytingar og gildistöku laganna. Varðandi breytingar á stjórnskipulagi bankans má nefna að skipaðir verða þrír varabankastjórar.

Ásgeir var formaður nefndar um endurskoðun íslenskrar peningastefnu, sem skilaði af sér síðasta sumar. en meðal þess sem nefndin lagði til var einmitt að aðstoðarseðlabankastjórum yrði fjölgað, úr einum í tvo. Skyldi annar leggja áherslu á fjármálastöðugleika, en hinn hefðbundna peningastefnu. Þá lagði nefndin einnig til að húsnæðisliður yrði undanskilinn í verðbólgumarkmiðinu, en húsnæðisverð hefur síðustu ár togað verðbólgu upp, og væri verðbólga nú 2,8% ef húsnæði væri undanskilið.

mbl.is

Bloggað um fréttina