500 farþegar í fyrstu ferð Herjólfs

„Hér er renniblíða,“ sagði Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., þegar mbl.is náði tali af honum í kvöld, en hann var þá staddur í Herjólfi IV í fyrstu ferð ferjunnar með farþega milli lands og Eyja. Þá voru um tuttugu mínútur þangað til hann kæmi til Landeyjahafnar. Lagt var af stað klukkan 19:30 úr Vestmannaeyjahöfn með 500 farþega.

 „Það er gott veður og sólin glampar hér á Eyjunum. Það skemmir ekki útsýnið og siglingin ekki heldur. Það er allt eins og best verður á kosið,“ sagði Guðbjartur, en siglingin hafði þá gengið vonum framar. 

„Það hefur gengið mjög vel. Við erum með tæplega fimm hundruð farþega og 55 bíla og það er nóg pláss eftir í ferjunni. Við erum bara ánægð,“ sagði Guðbjartur. „Þeir farþegar sem ég hef hitt eru alsælir og ánægðir bara,“ sagði hann.

Nýr Herjólfur í Landeyjahöfn eftir að hafa siglt með farþega …
Nýr Herjólfur í Landeyjahöfn eftir að hafa siglt með farþega frá Vestmannaeyjum í fyrsta sinn. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Öllum hnútum kunnugir“

Skipstjórar Herjólfs eru þrír. Ívar Torfason er fyrsti skipstjóri, en um borð eru einnig þeir Gísli Valur Gíslason og Sigmar Logi Hinriksson sem stýrði ferjunni í fyrstu ferðinni. Þeir, auk áhafnar ferjunnar, hafa prufað nýja skipið undanfarið. „Það er búið að sigla mikið hér á milli og það er gríðarlega fín og flott áhöfn hér á Herjólfi. Það hefur verið farið yfir alla þætti. Þótt þetta sé allt nýtt fyrir öllum, þá eru menn hér öllum hnútum kunnugir og vita hvað um er að vera,“ segir Ellert.

Sigmar Logi Hinriksson stýrði ferjunni í fyrstu ferðinni.
Sigmar Logi Hinriksson stýrði ferjunni í fyrstu ferðinni. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Nú erum við komin með skipið í rekstur og ég á ekki von á að við stoppum lengi í Landeyjahöfn. Ég á samt von á því að einhverjir verði mættir til að taka á móti okkur,“ segir Guðbjartur Ellert. 

Til skoðunar er hvort gamli Herjólfur sigli auk hins nýja um næstu helgi þegar Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fer fram. Guðbjartur Ellert segir að ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum, en alls ekki er útilokað að svo verði.

Sannkölluð rjómablíða var í fyrstu ferð Herjólfs.
Sannkölluð rjómablíða var í fyrstu ferð Herjólfs. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
55 bílar fóru með í fyrstu ferðina.
55 bílar fóru með í fyrstu ferðina. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Starfsfólk tók á móti farþegum með bros á vör.
Starfsfólk tók á móti farþegum með bros á vör. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Magir kusu að njóta útsýnisins uppi á dekki.
Magir kusu að njóta útsýnisins uppi á dekki. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Faregar fara vel um sig á leiðinni til Eyja.
Faregar fara vel um sig á leiðinni til Eyja. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert