Flugfreyjur krefjast milljarðar úr þrotabúi

Um 400 flugfreyjur og flugþjónar misstu vinnuna þegar WOW air …
Um 400 flugfreyjur og flugþjónar misstu vinnuna þegar WOW air fór í þrot. mbl.is/​Hari

Flugfreyjur sem misstu vinnuna þegar WOW air fór í þrot gera um eins milljarðs króna kröfur í þrotabúið. Haukur Örn Birgisson lögmaður Flugfreyjufélags Íslands, segir þetta væntanlega vera hæstu hæstu forgangskröfuna.

Um 400 flugfreyjur og flugþjónar misstu vinnuna þegar WOW air varð gjaldþrota og gerir flugfreyjufélagið kröfu fyrir hönd flugfreyjanna vegna ógreiddra launa fyrir marsmánuð og bóta fyrir þriggja mánaða launamissi vegna þrotsins.

RÚV greindi fyrst frá, en Haukur Örn segir í samtali við mbl.is að hann sé ekki með nákvæma upphæð krafnanna, sem verið er að leggja lokahönd á. Heildarupphæðin sé þó líklega í kringum einn milljarð.

„Ég byggi það á því að þetta eru rúmlega 400 kröfur og meðal fjárhæð hverrar kröfu er í kringum 2,5 milljónir.“  

Þetta sé því væntanlega stærsta forgangskrafan í búið. „Ég byggi það það á því að flugfreyjur og flugþjónar voru meirihluti starfsmanna félagsins,“ segir hann, en eingöngu starfsmenn og lífeyrissjóðir eiga forgangskröfur í búið.

Hann er nokkuð bjartsýnn á að kröfurnar fáist greiddar, a.m.k, að hluta en segir kröfuhafa þó ekki hafa upplýsingar um hverjar eignir búsins eru, eða hvað fæst endurheimt af þeim.

„Mér finnst þó ólíklegt að eignir búsins muni duga fyrir öllum forgangskröfum,“ segir Haukur. Ábyrgðasjóður launa ábyrgist hins vegar greiðslur launa, þó með þaki á hverja kröfu. „Við vonumst til að heimtur frá ábyrgðasjóðnum nái að dekka sem mest af þessum forgangskröfum.Svo verður að koma ljóst hvað fæst greitt úr þrotabúinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert