Hlaupið með byrðar í þrúgandi hita

Björgvin Karl Guðmundsson kemur örmagna í mark í hitanum eftir …
Björgvin Karl Guðmundsson kemur örmagna í mark í hitanum eftir sex kílómetra sprett með þungan bakpoka. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson

Fyrstu æfingu dagsins á heimsleikunum í crossfit lauk fyrir skemmstu og þar voru íslensku keppendurnir í eldlínunni, en þrautin var sex kílómetra hlaup með bakpoka sem var þyngdur eftir hvern einn og hálfan kílómetra.

Katrín Tanja Davíðsdóttir var fimmta í mark, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir níunda, Þuríður Erla Helgadóttir í 24. sæti og Oddrún Eik Gylfadóttir og Annie Mist Þórisdóttir voru í 40. og 41. sæti í þessari grein.

Heildarstaða dætranna er því orðin þannig að Katrín Tanja er í 6. sæti, Annie í 14., Þuríður í 17., Ragnheiður Sara í 18. og Oddrún Eik í 40. sæti.

Björgvin Karl Guðmundsson var sautjándi í mark karlamegin og þýðir það að hann er orðinn áttundi í heildarkeppninni eftir þrjár greinar.

En allt breytist þetta hratt og næsta grein er bara rétt handan við hornið.

Katrín Tanja kemur í mark á fimmta besta tíma kvenna.
Katrín Tanja kemur í mark á fimmta besta tíma kvenna. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson

Hrikalegur hiti

Hitinn er gríðarlegur í Madison í Wisconsins og segir Ingi Torfi Sverrisson, tíðindamaður mbl.is á staðnum, að keppendur hafi komið gjörsamlega örmagna í mark, með bakpoka sem var á þeim tímapunkti orðinn 22,5 kíló að þyngd.

Hér að neðan má horfa á útsendingu frá öðrum keppnisdegi og hér er hægt að fylgjast með stöðutöflunni, sem uppfærist eftir hverja grein.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka