„Vatn sem klárar þig á fimm mínútum“

Úlfljótsvatn.
Úlfljótsvatn. Ljósmynd/Bandalag íslenskra skáta

Maður sem kom til bjargar er tveir menn féllu í Úlfljótsvatn í gær, Bandaríkjamaður sem er látinn og leiðsögumaður hans, segir málið hafa tekið mikið á sig og mág sinn, en þeir björguðu leiðsögumanninum úr vatninu. Segir hann mikilvægt að björgunarhringir séu til staðar á straumþungum veiðisvæðum sem þessu. 

„Ég og mágur minn vorum þarna við veiðar og það kemur þarna íslenskur leiðsögumaður með þrjá erlenda ferðamenn með sér. Við vorum sitthvorum megin við eyju sem er þarna á Kaldárhöfðanum. Við ákváðum að taka okkur pásu og athuga hvort að þeir væru búnir að fá fisk,“ segir Leifur Ingi Magnússon. 

Leifur var við veiðar í Úlfljótsvatni þegar hann og mágur …
Leifur var við veiðar í Úlfljótsvatni þegar hann og mágur hans tóku eftir mönnunum að örmagnast í vatninu. Ljósmynd/Aðsend

„Við löbbuðum þarna til þeirra og fyrsta sem við sjáum er íslenski leiðsögumaðurinn úti í vatni. Okkar fyrsta hugsun var bara „hvað er í gangi, er hann að synda þarna?“ Okkur fannst við sjá hatt þarna aðeins lengra og við áttum okkur fljótlega á því að leiðsögumaðurinn er í vandræðum og hausinn á honum rétt upp úr vatninu og hann er þarna að örmagnast. 

„Við klæðum okkur bara úr og út í vatn og við náum honum. Á leiðinni áttum við okkur á því að þetta sem við sáum var ekki hattur heldur maður sem flaut þarna. Við förum með manninn í land og komum honum í þurr föt og áttum okkur á því að við náum ekki til erlenda mannsins. Við náum að kalla á fólk sem var þarna úti hinum megin á bakkanum og segja þeim að það sé ennþá maður í vatninu,“ segir Leifur. 

Vatn sem klárar þig á fimm mínútum

„Þá hlaupa þarna tveir menn, sem ég veit ekki hverjir eru, að bát og róa að honum og ég lóðsa þeim að honum vegna þess að það sást bara rétt í hann öðru hverju. Þeir ná honum upp í bát og byrja strax endurlífgun og svo koma sjúkrabílar og lögreglubílar. Þegar þeir koma var maðurinn meðvitundarlaus og fer með þyrlunni í burtu. Íslendingurinn náði að jafna sig en var orðinn kaldur náttúrulega og þreyttur. Þetta er náttúrulega gríðarlega kalt vatn sem klárar þig á fimm mínútum.“

Erlendi ferðamaðurinn sem lést var á áttræðisaldri. Leifur segist ekki vita hvort að maðurinn hafi verið á lífi er hann var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landsspítalann. 

Mikilvægt að björgunarhringir séu til staðar

Aðspurður hvað hann telji að hafi gerst segist Leifur halda að maðurinn hafi misst fótfestu. 

„Þeir standa þarna í lygnu stæði en hann fer aðeins út í straum og missir lappirnar. Leiðsögumaðurinn reynir að bjarga honum en var bara sjálfur farinn að fyllast af vatni og þurfti náttúrulega bara að bjarga sjálfum sér.“

Leifur segir málið hafa tekið mikið á sig og mág sinn og segir hann áfallateymi Rauða krossins og lögreglumenn á svæðinu eiga mikið hrós skilið, sem og mennina tvo sem náðu manninum upp í bát sinn. 

Þá segir hann þjálfun hjá björgunarsveitinni á Akranesi hafa nýst sér mikið auk þess sem hann hvetur veiðifélög á svæðinu til að tryggja að björgunarhringir séu til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert