Málið enn á viðkvæmu stigi

Norræna við bryggju á Seyðisfirði.
Norræna við bryggju á Seyðisfirði. mbl.is/Þorgeir

Lögreglan á Austurlandi, sem rannsakar stórfelldan innflutning fíkniefna með farþegaferjunni Norrænu á fimmtudag, segir málið enn á viðkvæmu stigi og veitir engar upplýsingar að svo stöddu.

Mennirnir tveir, sem grunaðir eru um smyglið, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Austurlands á laugardag og fluttir til Reykjavíkur með flugi að kvöldi laugardags.

Samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða 45 kíló af hvítum efnum, amfetamíni og kókaíni, en ekki hafa fengist upplýsingar um það hversu mikið er af hvoru efni eða hversu hrein efnin eru.

Annar mannanna við komuna til Reykjavíkur um helgina.
Annar mannanna við komuna til Reykjavíkur um helgina. mbl.is/Snorri

Þó hefur mbl.is fengið að heyra af því að aldrei hafi verið lagt hald jafn verðmæta fíkniefnasendingu. Samkvæmt nýjustu verðkönnun SÁÁ á götusöluverði fíkniefna kostaði eitt gramm af kókaíni 14.600 kr. og eitt gramm af amfetamíni 3.700 kr. í febrúar síðastliðnum.

Efnin fundust í alls kyns hólfum í bifreið mannanna tveggja eftir að fíkniefnaleitarhundur lögreglunnar á Egilsstöðum rann á lyktina af efnunum við tollskoðun skipsins í Seyðisfjarðarhöfn á fimmtudaginn.

mbl.is