Ræða um þriðja orkupakkann

Frá upphafi fundarins í morgun.
Frá upphafi fundarins í morgun. mbl.is/Hjörtur

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, og formenn þingflokka stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á þingi sitja nú á fundi í Alþingishúsinu þar sem til umræðu er þingstarfið framundan.

Meðal þess sem er til umræðu á fundinum er þriðji orkupakki Evrópusambandsins en samkvæmt samkomulagi sem gert var í vor þegar afgreiðslu málsins var frestað stendur til að afgreiða það á nokkrum þingdögum í kringum næstu mánaðarmót.

Samkomulagið var gert í tengslum við frestun þingfunda í vor eftir að einkum þingmenn Miðflokksins höfðu rætt um þriðja orkupakkann á löngum fundum á Alþingi dögum saman. Vildu þeir að þess yrði freistað að fá bindandi undanþágu frá pakkanum.

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að þriðji orkupakkinn verði samþykktur einkum á þeim forsendum að Ísland sé skuldbundið til þess vegna aðildar landsins að EES-samningnum. Verði það ekki gert vilja þau meina að það gæti sett samninginn í uppnám. 

mbl.is