Safnaði fyrir hjólinu í heilt ár

Þóranna var afar stolt af dóttur sinni þegar henni tókst …
Þóranna var afar stolt af dóttur sinni þegar henni tókst að safna sér fyrir hjóli. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk margar ábendingar um hvar ég ætti að leita og við tókum tveggja tíma rúnt í leit að hjólinu. En þar sem það var glænýtt skilst mér að það sé líklegast komið inn í gám einhversstaðar,“ segir Þóranna Friðgeirsdóttir, móðir stúlku hverrar hjóli var stolið í nótt, í samtali við mbl.is.

Birta Mjöll, dóttir Þórönnu, er 13 ára og hafði safnað sér fyrir nýju hjóli í heilt ár áður en hún fjárfesti í einu slíku í síðustu viku. Það beið hennar hins vegar síður skemmtileg sjón í morgun þegar hún kom að sundurklipptum hjólalásnum.

Þóranna er einstæð móðir með þrjú börn og segir það hægara sagt en gert að kaupa ný hjól handa börnunum. Hún var því afar stolt af dóttur sinni þegar henni tókst að safna sér fyrir hjóli sem kostaði um 70 þúsund krónur.

Birta Mjöll er vitanlega miður sín vegna þjófnaðarins en Þóranna segist orðlaus yfir þeim viðbrögðum sem hún hefur fengið, en hátt í þúsund manns hafa deilt færslunni.

„Ég benti dóttur minni á það í morgun að þó það væri til fólk sem hefði fyrir því að stela frá öðrum væri til mun meira af góðu fólki og karmað myndi sjá um sína. Það hefur klárlega sýnt sig á þessum viðbrögðum,“ segir Þóranna og vonar að þjófurinn sjái að sér og skili hjólinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert